- Advertisement -

Ekki veikjast á geði í sumar, það er nefnilega lokað

Ingólfur Sigurðsson.

Móttökudeild fíknimeðferðar er lokuð í tvo mánuði, dagdeild Hvítabandsins er lokuð í rúman mánuð og dagdeild átröskunarteymis mun loka í tvo mánuði í sumar. Þess utan eru opnunartímar á bráðamóttöku geðdeildar frá kl. 12 til 19 á daginn. Á heimasíðu Landspítalans stendur að „í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar“ í Fossvogi. Í neyðartilvikum? Hefur einhver farið upp á bráðamóttöku geðdeildar nema í neyð?

Það er dapurleg staðreynd að í sumar býr fólk við skerta geðheilbrigðisþjónustu. 500 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa hjá Landspítalanum. Meðan allt virðist í blóma í samfélaginu birtast reglulegar fréttir af sjálfsvígum og vondri upplifun fólks af meingölluðu geðheilbrigðiskerfi. Hvers virði er það að segja allt vera í blóma í samfélaginu þegar við getum ekki aðstoðað hvert annað í brýnustu neyð? Rauði krossinn tók við 720 símtölum sem tengdust sjálfsvígshugsunum árið 2017. Um 800 manns hafa framið sjálfsvíg á rúmum 20 árum. Það gerir að meðaltali 40 sjálfsvíg á ári. Og í langflestum tilfellum eru það ungir karlmenn. Ætli yrði brugðist við slíkum fjölda banaslysa í umferðinni með því að slökkva á umferðarljósum yfir sumartímann í sparnaðarskyni? Eða að vegir yrðu þrengdir?

Það er þyngra en tárum taki að lesa viðtöl fjölmiðla við hugrakka foreldra sem misst hafa börn sín undanfarna mánuði vegna læknadóps. Allt sem þeir vilja er að aðrir foreldrar þurfi ekki að endurupplifa martröð þeirra. Í viðtölum hefur komið fram að rót vandans hjá fórnarlömbum læknadóps er andleg vanheilsa. „Það virðast ekki vera til úrræði fyrir þetta fólk. Það þarf að vera hægt að grípa fólk sem lendir í andlegri krísu áður en það fer að reyna að lækna sig sjálft,“ segir móðir sem missti son sinn nýverið í viðtali við DV.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og fólk hefur aldrei verið jafn opinskátt um andlega heilsu sína er geðheilbrigðiskerfið sennilega verr farið en sjúklingarnir sem þurfa þjónustu þess. Það er löngu tímabært að hætta þessum endalausu nefndarskipunum, fundarhöldum og loforðum sem virðast engu skila nema falskri von um stundarsakir. Það er alvitað að laun heilbrigðisstarfsmanna eru lífshættulega lág og það skal vera forgangsmál að bæta úr því. Það þarf að bretta upp ermarnar og fólk í stjórnunarstöðum þarf að hafa raunverulegan áhuga á að búa til besta geðheilbrigðiskerfi í heimi. Starfi einhver á þessu sviði sem finnur ekki fyrir þeim metnaði, þá er nóg af öðrum störfum í boði. Við þurfum hvert á öðru að halda í gegnum lífið, öllum þegnum samfélagsins. Öllum. Falli einhver frá, er það ósigur okkar allra.

Það ríkir neyðarástand í geðheilbrigðismálum á Íslandi og því fyrr sem brugðist er við – því fleiri lífum verður bjargað. Án starfsmanna verður engin geðdeild.

Ingólfur Sigurðsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: