Það er alltaf betra að opinber stofnun hafi sem fæst markmið.
Þessi frétt er endurbirt, af gefnu tilefni. Jón Daníelsson á skilið að á hann sé hlustað.
Jón Daníelsson , hagfræðingur við London School og Econmics, sagði í viðtali fyrir fáum árum að hann væri þeirrar skoðunar að það væru mistök að færa Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankann.
„Fjármálaeftirlit og starfsemi seðlabanka á að vera aðskilið. Það er alltaf betra að opinber stofnun hafi sem fæst markmið. Ef hún hefur mörg markmið, sem eru illa skilgreind og stangast hvert á við annað, þá er hætta á því að annað verði undir og hitt ofan á. Sá möguleiki yrði þá fyrir hendi að ef Fjármálaeftirlitið yrði sett inn í Seðlabanka Íslands þá myndu önnur sjónarmið en eftirlit með fjármálafyrirtækjum verða ofan á. Vandamálið er að þegar seðlabanka er fengið of víðtækt hlutverk þá eru meiri líkur á því að eitthvað fari úrskeiðis sem þá um leið dregur úr trúverðugleika hans. Það aftur hefur áhrif á getu seðlabanka til að framfylgja þeim málaflokkum sem eru taldir skipta mestu máli við stjórnun peninga- og efnahagsmála.“
Þróunin á heimsvísu á umliðnum árum hefur engu að síður verið í þá átt að fela seðlabönkum enn víðtækara hlutverk og völd á sviði efnahagsmála. Jón bendir á að þetta sé ekkert nýtt. „Í gegnum söguna hefur þetta sveiflast upp og niður. Það vill svo til að núna erum við að horfa fram á tímabil þar sem völd seðlabanka eru í uppsveiflu um mestallan heim. Tískan í dag er sú að fela seðlabönkum mikil völd, til að mynda á sviði þjóðhagsvarúðar, en það er alls óvíst hversu vel þessi tilraun á eftir að heppnast.“