- Advertisement -

Ekki pláss fyrir lögguna í Reykjavík

„Menn þekkja það að ég vann að því með lögreglunni, þegar ég sat í ráðuneyti dómsmála, að leita að heppilegra húsnæði. Það liggur fyrir að lögreglan þarf að flytja af Hverfisgötunni. Þá koma ýmsir staðir til greina en þeir eru flestir utan Reykjavíkur,“ sagði Sigríður Á Andersen í þingræðu um samgöngur í Reykjavík.

„Ég lét skoða það og kanna sérstaklega hvernig færi á því að flytja lögregluna til nágrannasveitarfélaganna og það er ekkert sem mælir því í mót en það er einungis einn staður í Reykjavík sem kæmi til greina, við Sundahöfn, fyrir lögregluna í Reykjavík en nokkrir staðir aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Ég hafði af því áhyggjur að heyra sjónarmið sumra úr lögreglunni sem höfðu ekkert á móti því sérstaklega að fara úr Reykjavík og þessu ætti borgaryfirvöld hafa áhyggjur af. Landsrétti, sem tók til starfa í minni ráðherratíð, var fundinn staður utan Reykjavíkur, í Kópavogi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er staðsettur í Kópavogi líka. Það er ekki sýslumaður í höfuðborginni lengur og svona mætti lengi telja. Af einkafyrirtækjum get ég nefnt Icelandair sem hefur flutt umfangsmikla starfsemi sína í Hafnarfjörð. Þetta ætti að vera áhyggjuefni fyrir borgaryfirvöld. Þetta er þróun sem ekki sér fyrir endann á,“ sagði hún.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: