- Advertisement -

Ekki nógu stór sigur hjá Guðlaugi Þór

Gunnar Smári skrifar:

Tíðindin í þessu eru að Guðlaugur Þór vinnur ekki nægilega stóran sigur til að geta talist líklegastur sem næsti formaður flokksins. Áslaug Arna sótti mikið að honum. Guðlaugur fékk 48,7% í fyrsta sætið en Áslaug Arna 46,1%. Það er jafnt í hálfleik, slagurinn mun halda áfram. Ef Þórdís Kolbrún jarðar Harald Benediktsson í norðvestri eftir tvær vikur er hún með pálmann í höndunum.

Stærri tíðindi eru að Sigríður Á Andersen sem var í fyrsta sæti í Reykjavík suður fellur niður listann, langt undir mögulegt þingsæti. Áslaug Arna tekur í sæti Sigríðar sem oddviti, eins og hún tók við dómsmálaráðuneytinu af henni.

Önnur stór tíðindi eru að Diljá Mist Einarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir taka annað sætið á sitthvorum listanum, sem Brynjar Níelsson og Áslaug Arna sátu í 2017. Þær ýta ekki bara Sigríði og Brynjari niður fyrir sig heldur Birgi Ármannssyni líka.

Þórdis Kolbrún R. Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttirþ

Þeir Brynjar og Birgir sitja í þriðju sætunum, en 2017 slapp Birgir inn sem þingmaður sitjandi í þriðja sæti í Reykjavík norður. Hildur Sverrisdóttir var í þriðja sætinu í Reykjavík suður og slapp ekki inn. Kannanir hafa sýnt fylgistap Sjálfstæðisflokksins svo ólíklegt er að þriðja sæti á listum flokksins í Reykjavík skili þingsæti. Til að ná því þarf flokkurinn að auka þó nokkuð við fylgi sitt, fara yfir 25% fyrir annan þingmanninn og yfir 27% fyrir báða.

Það er því líklegast að þeir félagar, Birgir og Brynjar, hafi verið felldir af þingi í prófkjörinu og það bjóði þeim upp á að varaþingmenn næsta kjörtímabil, skiptist á að skjótast inn á þing ásamt Kjarani Magnússyni og Friðjóni Friðjónssyni. Brynjar sættir sig ekki við það, mun ekki taka sætið og Kjartan þá færast upp.

Þarna eru líka kynjatíðindi. Reykjavíkurþingmenn xD verða líklega þrjár konur og einn karl eftir kosningar í stað tveggja kvenna og þriggja karla.

Sigmundur Davíð hefur því fagnað þessum úrslitum fremur en Þorgerður Katrín.

Listinn sem varð ofan á ver Sjálfstæðisflokkinn frekar gegn leka yfir í Viðreisn en yfir í Miðflokkinn. Sigmundur Davíð hefur því fagnað þessum úrslitum fremur en Þorgerður Katrín. Þetta er líka listi sem gæti lokkað fólk sem fannst uppstilling Framsóknarflokksins í borginni smart, það mætti kalla þetta Sjálfstæðisflokk til áframhaldandi stjórnarsamstarfs með VG og Framsókn að viðbættri Viðreisn. Þau sem gagnrýndu samstarfið mest tapa í prófkjörinu; Brynjar og Sigríður. Frá þeirra sjónarhól hefur flokkurinn verið taminn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: