„Hins vegar langar mig til að koma hingað upp aðeins til þess að ræða um gjaldmiðilinn,“ sagði Bjarni fjármálaráðherra á Alþingi.
„Þegar krónan styrkist og styrkist, heldur áfram að styrkjast vegna þess að samsetning hagkerfisins er að breytast, gjaldeyrir flæðir inn út af fleiri ferðamönnum, ný þjónustugrein verður til, þá er gjaldmiðillinn að gera nákvæmlega það sem við ætlum honum að gera,“ sagði hann og bætti við:
„Það getur í mínum huga ekki verið markmið að hafa stöðugan gjaldmiðil og hafa hann bara alltaf stöðugan óháð því sem er að gerast í hagkerfinu, þá gerir gjaldmiðillinn ekki það sem hann ætti að vera að gera. Það hefði t.d. verið mjög hættulegt að binda íslensku krónuna fasta við evruna og skipta síðan yfir í evru á mjög veikri krónu og fara síðan í gegnum það sem gerst hefur síðan með stórauknum komum ferðamanna með gjaldmiðil sem endurspeglar einhvern allt annan veruleika, kulnun á myntkerfi evrunnar. Þá lenda menn í svipaðri krísu og Svíar hafa dálítið verið að glíma við þar sem þeir hafa bara alls ekki neina stjórn á málum.“
Logi Einarsson sagði: „Ráðherra talaði um í morgun að íslenska krónan hefði haldið uppi góðum lífskjörum í landinu síðustu ár. Krónan er engin forsenda lífskjara. Hún hefur stundum komið okkur til hjálpar og hún hefur stundum komið okkur í bölvuð vandræði. Hún er kannski Loki Laufeyjarson í efnahagsmálum og menn greinir á, en hún skapar ekki stöðugleika. Það gerir allt annar hlutur sem við skulum ræða á eftir. Það er íslenskur almenningur og atvinnulífið sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á núna.“