Ekki kaupa hlutabréf í Icelandair
Gunnar Smári skrifar:
Fyrir þau ykkar sem nennið ekki að hlusta á gamlan mann rausa um sýn sína á sögu Bandaríkjanna, sjálfs síns og fyrirtækisins, hef ég dregið hér saman erindi Warren Buffet til hluthafa í Berkshire Hathaway (og heimsbyggðarinnar allrar):
Ef þú býrð í Bandaríkjunum, þar sem ríkisvaldið er í höndum auðvaldsins og þjónar ætíð hagsmunum þess, munt þú ekki tapa á að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem eru í stöðugum rekstri og hafa skilað hluthöfum sínum góðum arði áratugum saman. Kerfið sjálft verndar þig. Veðjaðu á þetta kerfi til lengri tíma og ekki örvænta þótt það komi kreppur, stríð, plágur eða hamfarir. Meðan auðvaldið heldur völdum mun ríkisvaldið ætíð verja hluthafa fyrirtækja fyrst og síðast. Fólk getur misst vinnuna, verið borið út af heimilum sínum, fjölskyldur hrapað ofan í sára fátækt vegna atvika sem þær átti enga sök á; en ef þú átt hlutafé og hefur ekki keypt það með lánsfé mun þetta kerfi, alræði auðvaldsins, ávallt koma þér yfir hörmungar. Líka þær sem fyrirtækin sem þú fjárfestir í bjuggu til.
Vegna þessarar stöðu skiptir 7.277 milljarða tap (tvöföld eign íslenskra lífeyrissjóða) á fyrsta ársfjórðungi litlu, ríkisvaldið í Bandaríkjunum mun sjá til þess að þessir peningar koma til baka. Berkshire Hathaway á um 20 þúsund milljarða í reiðufé og er því vel búið til að kaupa eignir þegar þær falla meira í verði. Þegar markaðurinn rís aftur munu hluthafa Berkshire Hathaway því verða enn ríkari og valdameiri.
En að einu leiti hefur Warren Buffet ákveðið að bregðast við, það er að láta ekki kerfið vinna fyrir sig og skila tapinu til baka. Hann hefur selt allt sem tengist flugi, hefur ekki trú á að verðhrun flugfélaga muni jafna sig á næstunni. Buffet mun því ekki ráðleggja íslensku lífeyrissjóðunum að kaupa nýtt hlutafé í Icelandair.