Vilhjálmur Bjarnason:
„Skrifari lærði nokkuð og kynntist ýmsu. Svo sem því að heilindi eru ekki til. En svik og lygi.“
„Eitt sinn tók skrifari þátt í starfi stjórnmálaflokks. Þar kom að ekki var lengur þörf fyrir skrifara innan þingflokks þess flokks. Innan flokks er vinátta engin viðskipti með kærleika. Skrifari lærði nokkuð og kynntist ýmsu. Svo sem því að heilindi eru ekki til. En svik og lygi,“ segir í nýrri Moggagrein Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanni Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson færði Vilhjálm úr öruggu sæti á framboðslista flokksins í Kraganum. Og hafði þar með áframhaldandi þingmennsku að engu.
„Til þess að vara og þjónusta sé seljanleg er það grundvallaratriði að varan og þjónustan sé aðlaðandi en ekki aflaðandi. Hefur stjórnmálaflokkur eitthvað fram að færa? Er það gott fyrir Flokkinn? Það var algeng spurning á þingtíma skrifara. Sjaldnast var spurt: Er það gott fyrir fólkið? Flokkur og fólk rímar að framan!“
Síðar í greininni skrifar Vilhjálmur: „Eitt sinn voru það talin viðurkennd sannindi að fastafylgi Sjálfstæðisflokksins væri 35% og kjörfylgi yfir 40%, en síðar var fastafylgi komið í 22%. Þá var kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins 33%.
Og hvert er fylgið núna samkvæmt skoðanakönnunum? Síðasta mæling Gallup segir 18,2%. Helmingur fylgis er horfinn!“
Síðar segir í greininni:
„Annað þingmál fjallar um „sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum“.
Þetta þingmál er flutt í skugga umræðna um sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. Faðir formanns Sjálfstæðisflokksins keypti hlut í Íslandsbanka hf. í blindu útboði til hæfra fjárfesta, sbr. lög nr. 161/2002.
Í stað þess að sýna auðmýkt og láta föður sinn falla frá kaupum á hlut í Íslandsbanka hf. forhertist formaður Sjálfstæðisflokksins og sagði föður sinn hafa mátt kaupa þennan hlut. Afleiðingin er fylgishrun Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum.“
Vilhjálmur segir: „Það eru ekki margar ríkiseignir sem geta talist vænleg söluvara.
Eignirnar eru:
Landsvirkjun
Landsbanki Íslands hf.
Hluti af Isavia, þ.e. Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nema vilji sé til að selja leiðsögukerfið um Norður-Atlantshaf.
Stjórnarráðið við Lækjartorg. Húsið er talið eign ríkissjóðs en ekki eru til þinglýstar heimildir um það.
Og hvað þegar þessar eignir eru seldar í eitt skipti? Ekki verður það endurtekið.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) hefur nokkra sérstöðu meðal þessara eigna. Íslenska ríkið lagði aldrei fram eina krónu til byggingar FLE. Á móti framlagi Bandaríkjamanna til byggingar varnarmannvirkis komu lán sem íslenska ríkið tók til að greiða sinn kostnað. Þau lán voru yfirtekin af opinberu hlutafélagi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf., en það félag gekk inn í Isavia ohf.
Það er hægt að selja Stjórnarráðshúsið og leigja til baka! Gjörningur líkist eilífðarláni.
Er þetta efnilegt framlag til að efla fylgi meðal borgaralegra afla?“
Verður Sjálfstæðisflokkurinn til á 100 ára afmælinu?
Næst kemur stór spurning: „Það er alls ekki gefið mál að Sjálfstæðisflokkurinn verði til á 100 ára afmæli flokksins, sem verður hinn 25. maí 2029, ef örlögin taka ekki í taumana. Samband íslenskra samvinnufélaga, sem talið var eiga eilífan aldur, hvarf án þess að nokkur maður saknaði þess.
Fjöldi fólks veit aðeins um tvo af þingmönnum flokksins og einhverjir hafa heyrt af dómsmálaráðherranum vegna útlendingamála.“
Í lok greinarinnar beinir Vilhjálmur Bjarnason pennanum að nafna sínum, þingmanninum Vilhjálmi Árnasyni, ritara flokksins:
„Ritari flokksins lætur ýmislegt fjúka sem ekki þykir þaulhugsað til dala. Þannig má skilja ritarann, að eindrægni vaxi í flokknum með minnkandi fylgi. Auðvitað fækkar deiluefnum með dvínandi kjörfylgi. Þannig að ekki ræður markaðsfræðin með sókn í fjöldafylgi för.
Enn er rétt að minna á hvað Guðbjartur bóndi segir: „Maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er sjálfstæður. Fólk sem er ekki sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk.““