Ekki er talað við svo mikið sem eina vinnandi manneskju. Ekki eina
Víst er að hafin eru átök um yfirráðin yfir lífeyrissjóðunum. Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar um nýjasta leikinn í baráttunni. Hann er að finna í Fréttablaðinu í dag:
„Forsíða Fréttablaðsins í dag: „Einhugur um frjálsara kerfi.“ Vísað er í umfjöllun í Markaðnum, viðskiptafréttablaði Fréttablaðsins. Í þeirri umfjöllun er talað við fjölda manna, margir eru nafnlausir viðmælendur af einhverjum ástæðum. En það er ekki talað við svo mikið sem eina vinnandi manneskju. Þrátt fyrir að vinnuaflið eigi hér lang stærstu sjóðina. Ekki eina. Og ekki einu sinni talað við svo mikið sem einn fulltrúa vinnuaflsins sem gæti haft eitthvað um málið að segja út frá hagsmunum þeirra sem eiga sjóðina.
Þið haldið kannski að ég sé að segja ósatt. Að ritstjórn Fréttablaðsins myndi ekki sjá sér fært um birta slíka fyrirsögn á forsíðu sinni. Um að „einhugur“ ríki um málið. Að minningin um eitthvað sem heitir á ensku „journalistic integrity“ hlyti að gera vart við sig og menn segðu: „Nei, það er ekki hægt að hafa fyrirsögnina svona. Tónið hana aðeins niður. Þetta er of blatant og brútal.“
En ég er ekkert að plata. Svona er þetta. Þið getið sjálf farið og lesið. Um þann mikla einhug sem ríkir um kerfið sem geymir lífeyri okkar vinnandi fólks. Ég hvet ykkur til að gera það. Og staldra svo við og hugleiða hvernig það megi vera að í lýðræðislegu samfélagi geti blaðamenn látið sér detta svona vinnubrögð í hug og ekki aðeins detta þau í hug, heldur fengið fullt ritstjórnarlegt frelsi til að framkvæma þau.“