Frá Alþingi: Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfylkingu spurði Guðlaug Þór Þórðarson umhvefisráðherra um sölu upprunavottorða og þá staðreynd að þau hafi hugsanlega verið tvítalin. Að rangt hafi verið haft við. Fyrst sagði Þórunn:
„Það er komin upp vandræðaleg staða vegna útgáfu og sölu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er hér á landi. Evrópsk samtök útgefenda upprunaábyrgðanna fullyrða að hér á landi sé vinnsla grænnar orku tvítalin. Orkumálastjóri segir að stofnunin hafi engin úrræði til að grípa inn í en lengi hafi verið bent á að úrbóta sé þörf. Á það var reyndar einnig bent í gagnmerkri skýrslu sem Hrafnhildur Bragadóttir og Birna Hallsdóttir unnu fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2016. Meginniðurstaða hennar var að hætta sé á tvítalningu í núverandi kerfi hér á landi.“
Þórunn hefur enn orðið:
„Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara án tengsla við uppruna orkunnar. Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar kapítalísk snilli eða bara hugmynd sem vekur óþægileg hugrenningatengsl við aðrar fjármálaafurðir eins og vafninga. En skilyrði þess að kerfi með upprunaábyrgðir þjóni markmiði sínu er að aðeins sé gefin út ein upprunaábyrgð á hverja einingu eða hverja megavattsstund. Ég fullyrði að staðan sem komin er upp hefur neikvæð áhrif á ímynd og trúverðugleika Íslands sem raforkuframleiðenda en einnig inn á við af því að það stríðir gegn almennri skynsemi fólks að sala á upprunaábyrgðum valdi því í okkar lokaða raforkukerfi að uppruni orkunnar sé tilgreindur sem kjarnorka eða kol. Skráninguna þarf augljóslega að laga og þessi staða bakar orkuframleiðendum hér á landi auðvitað tjón. En handan við þessa stöðu er hins vegar önnur spurning sem þarf að svara: Erum við komin þangað að öll fyrirtæki sem selja vöru og fullyrða að hún sé framleidd með grænni raforku þurfi framvegis að kaupa vottaða upprunaábyrgð?“
Þá var komið að Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hann var fullur sjálfstrausts. Hann sagði:
„Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það sem háttvirtur þingmaður er að vísa til sem kalla mætti kapítalíska snilli er bara uppgötvun Evrópusambandsins, það er bara þannig. Háttvirtur þingmaður er, held ég, búinn að skipta um skoðun. Nú er þetta orðið alveg snilli, enda kemur þetta frá Evrópusambandinu. En í mínum huga er þetta bara þannig að þegar ég tók við því embætti sem ég gegni í dag þá setti ég fljótlega af stað vinnu til að skoða þætti þessa máls því að í það minnsta hafa íslensk orkufyrirtæki tekið þátt í þessu á grundvelli EES-samningsins. Það er umræða um þetta í Noregi eins og hér.“
Guðlaugur Þór sendi boltann til Brussel. Höldum áfram með umhverfisráðherrann:
„Háttvirtur þingmaður fer yfir hluti sem mér finnst vera frekar augljósir. Mér finnst þetta ekki vera einfalt mál en þarna eru miklir hagsmunir undir. Það sem ég hef gert er að ég setti strax, eða fljótlega, á vinnu út af þessu þannig að við getum tekið þessa umræðu út frá staðreyndum og þá að meta þá hagsmuni sem þarna eru undir. Ég er ekkert viss um að þetta sé besta hugmynd sem hefur komið fram og það eru augljóslega ákveðnar hættur fyrir okkur Íslendinga þegar að þessu kemur. Þegar þetta mál kemur upp, sem ég hafði ekki neina vitneskju um, var það mitt verk að kalla eftir upplýsingum um stöðu málsins. Það er ákveðin þróun á því, þ.e. menn eru bæði að kortleggja þetta og sjá hvað þetta þýðir fyrir íslenska orkuframleiðendur og fyrir okkur. Eftir stendur að við þurfum að ræða upprunaábyrgðir. Það er bara þannig. Háttvirtur þingmaður verður að kenna réttum aðilum um þetta. Þetta er ekki kapítalisminn, þetta er Evrópusambandið.
-sme