Ekkert traust til stjórnmálamanna
Formaður Eflingar fékk aðeins tvær mínútur í Kastljósi en stjórnmálamenn fengu mun lengri tíma.
„Það er svo dæmigert af hálfu fréttastofu að kalla á einn formann verkalýðsfélags og gefa henni u.þ.b. tveiur mínútum til að fara yfir stöðuna á vinnumarkaði og fá síðan tvo stjórnmálamenn í korter sem sögðu jú eitt að annað sem enginn tekur mark á.“
Þannig skrifar Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, eftir að hafa horft á Kastljós Ríkissjónvarpsins í kvöld.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar var fyrsti gestur þáttarins, og fékk örstund til að fara yfir stöðuna í aðdraganda samninga og fyrirséðra átaka á vinnumarkaði.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fengu rýmri tíma.
„Þeir sögðu nákvæmlega það sama og stjórnmálamenn hafa sagt fyrir alla kjarasamninga það sem af er þessari öld og hafa síðan svikið öll loforð skælbrosandi,“ skrifar Guðmundur.
Og hann rökstyður mál sitt: „Þar má t.d. benda á hvernig stjórnmálamennirnir fóru með stöðugleikasamningana og stóðu við ekkert af því sem þeir höfðu lofað og jafnvel undirritað í kjarasmaningum. Enda er nákvæmlega ekkert traust af hálfu launamanna og eldri borgara gagnvart sjórnmálamönnum. Ekkert.“