- Advertisement -

Ekkert lífsmark við ríkisstjórnarborðið

Það er neyðarástand í efnahagsmálum. Það er neyðarástand á heimilunum.

Gísli Rafn Ólafsson.

„Við sem höfum tekist á við krísur hingað og þangað um heiminn höfum lært að það þýðir ekkert að stinga hausnum í sandinn og athuga hvort stormurinn gangi ekki bara yfir. Það er neyðarástand í efnahagsmálum. Það er neyðarástand á heimilunum. Það þýðir ekkert að segja bara: Já, við erum búin að gera þetta, við erum búin að gera hitt. Það er ekki að virka. Við þurfum að ræða hér saman um hvað er hægt að gera sem hefur alvöruáhrif fyrir þá sem líða fyrir það hvernig ástandið er. Við hljótum að geta sest niður og hætt að tala bara um eitthvað sem er búið að gera og tala um hlutina eins og þeir eru og hvað við ætlum að gera vegna þess að annars skiljum við þetta land eftir eins og eftir einhvern fellibyl sem hefur farið hér yfir,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson Pírati í umræðu um efnahagsmál.

„En það er átakanlegt að sjá að það er ekkert lífsmark að finna við ríkisstjórnarborðið, ekkert frumkvæði að því að eiga þetta samtal hér og segja: Hvað er það sem við getum gert saman til þess að koma til móts við heimilin og fyrirtækin í landinu í því ástandi sem nú er? Ég vonast til þess, í þeirri umræðu sem við munum taka í næstu viku, um það ófremdarástand sem er í íslensku efnahagslífi, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forystufólk mæti hér til þess að tala við okkur og eiga samtal um það hvernig við megum og eigum að gera betur,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.

„Það þarf að gera eitthvað til að hjálpa heimilum sem eru bókstaflega komin á vonarvöl. Þetta var bara svona grimmilegt högg, enn eitt höggið, í þrettánda skiptið, sem kom frá Seðlabanka Íslands í morgun. Ríkisstjórn Íslands virðist algerlega vera búin að gefa þetta frá sér og gefa valdið til þessa fólks sem þar situr til þess að ráða þessu algerlega. Það hefur meira vald en allir kjörnir fulltrúar. Það gengur ekki upp og það er eitthvað sem þarf að ræða. En bara burt séð frá því þá verður að grípa til aðgerða núna og besta aðgerðin væri að hætta þessum vaxtahækkunum, minnka húsnæðiskostnaðinn hjá fólki vegna þess að aðgerðirnar gegn verðbólgunni eru miklu verri en verðbólgan sjálf. Ef fólk eyðir 500.000 kr. á mánuði, þá er 10% verðbólga 50.000 kr. aukning, Seðlabankinn er búinn að bæta 240.000 kr. við á 40 millj. kr. láni, plús þessum 50.000 kr.,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir Flokki fólksins á Alþingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: