Ekkert lát á styrkingu krónunnar
- Seðlabankinn spáir enn frekari hækkun krónunnar. Skapar vandræði í útflutningi.
Seðlabankinn lækkað stýrivexti í gær, ekki mikið, en þeir fóru úr fimm prósentum í 4,75. Sterk staða íslensku krónunnar hefur komið illa við útfluningsgreinar. Ekki síst ferðaþjónustuna.
Bjarnheiður Hallsdóttir sagði, í Svartfugli í gær, að ferðabókanir hingað frá Þýskalandi hafi dregist saman og muni enn dragast saman, að óbreyttu.
„Við munum ekki taka Ísland út. Við erum hins vegar langt komin með skipulagningu ferða næsta árs og munum örugglega skera töluvert niður á Íslandi því við reiknum ekki með að margir muni kaupa ferðir þangað,“ segir Manfred Schreiber hjá ferðaskrifstofunni Studiosus í Þýskalandi, í viðtali á turisti.is. Schreiber vísar til þess hversu dýr áfangastaður Ísland er orðinn.
Bjarnheiður tók undir þessi orð.
Seðlabankinn reiknar með að gengi krónunnar hækki enn frekar. Í Peningamálum sem komu út í gær, segir til dæmis:
„Samkvæmt grunnspánni hækkar gengi krónunnar áfram til loka næsta árs. Gert er ráð fyrir að viðskiptavegin gengisvísitala verði að meðaltali um 157 stig í ár og um 148 stig á næsta ári. Gangi forsendur spárinnar eftir verður gengi krónunnar í ár að meðaltali ríflega 14½% hærra en í fyrra og hækkar um ríflega 6% til viðbótar á næstu tveimur árum. Árið 2019 yrði gengi krónunnar 3½% hærra en gert var ráð fyrir í febrúar, en rétt er að undirstrika óvissuna í þessum spám. Raungengið mun samkvæmt spánni hækka meira en áður hefur verið spáð. Gangi það eftir verður það orðið 11% hærra í lok spá- tímans en á fyrsta fjórðungi þessa árs, sé miðað við hlutfallslegt verð- lag. Hækkunin miðað við hlutfallslegan launakostnað er heldur meiri.“
-sme