Þröstur Ólafsson hagfræðingur:
Við viljum áfram vera norrænt/evrópskt velferðarríki. Við verðum að hafa hraðar hendur og ganga einbeittir til verks og taka upp viðræður við ESB um aðild.
Á það hefur margsinnis verið bent á þessum vettvangi að þau pólitísku flekahreyfingar sem nú ganga yfir heiminn kunni að kalla á breyttar áherslur í utanríkismálum okkar. Heimsveldi eiga enga vini – bara hagsmuni. Litlar þjóðir þurfa skjól og vini. Við leituðum okkur skjóls meðal vina, þegar við gengum í NATO árið 1949. Ógnin í austri var kominn vestur að Elbufljóti. Síðan eru liðin 75 ár og heimsmyndin orðin breytt. Nú tíðkast þau hin breiðu spjótin og hraðskjótar byssur.
Öflug ríki taka eða vilja taka önnur veikari og leggja undir sig, óháð vilja þeirra. Jafnvel vinaríki hóta fjandsamlegri yfirtöku. Stjórnmál er líka menning. Hún getur einkennst af hrottafengi, yfirgangi og valdboði. Þannig menningarskeið gæti verið að hefjast þessi árin. Ekkert land á norðurhveli er Trump jafn auðvelt til yfirtöku og Ísland með nokkur hundruð hermenn tilbúna á Vellinum. Þeir komu þangað án þess að flestir Íslendingar hefðu um það minnstu vitneskju. Forsetinn verðandi þarf bara hálfa setningu -take it – engan frekari undirbúning.
Eins og vant er erum við óundirbúin með hola kalda stríðs heimsmynd í hausnum. Upptekin af smámálum, hagsmunapoti eða bara að deila til að deila. Það hefur verið mörgum ljóst að smáríki sem við, þyrftum meira skjól en bara hernaðarlegt, því það er eitt af einkennum heimsvelda að stækka sig, leggja undir sig önnur lönd, með góðu eða illu.
Evrópusambandið birtist nú mörgum sem skjól fyrir ágangi frá austri, en nú allt í einu einnig frá vestri. Evrópuhluti herja NATO er öflugur. Nú eru þær skoðanir sem vilja styrkja þennan hluta NATO frekar sem slíkan, orðnar háværari. Ísland er eins og korktappi úti á miðju Norður Atlantshafi. Bakgarður okkar gæti á augnabliki breyst í átakasvæði.
Við viljum áfram vera norrænt/evrópskt velferðarríki. Við verðum að hafa hraðar hendur og ganga einbeittir til verks og taka upp viðræður við ESB um aðild.
Það getur orðið of seint að bíða og sjá hvað setur. Ætli verðandi forseti BNA að reyna að svæla þjóðir til fylgis við sig með tollum og viðskiptaþvingunum (t.d. Kanada), þá er eins gott að eiga traustan bakhjarl, vera hluti af heild eins og áður fyrr þegar ógnin var einátta.