- Advertisement -

Ekkert heyrist frá ríkisstjórninni

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Síðastliðið vor leitaði ég eftir því við forseta ASÍ að fá umboð Alþýðusambandsins til að leiða vinnu um varnir fyrir heimilin. Varnir sem grípa fólkið okkar sem verður fyrir tekjufalli vegna Covid kreppunnar, kreppu sem við eigum enga sök á frekar en fyrri kreppum.

Umboðið var auðsótt og hófum við vinnu við greiningar og hugmyndir að úrlausnum á flóknu verkefni sem snýr að framfærslu og fjölda mismunandi skuldbindinga sem fólk þarf að standa skil á við rekstur heimilis.
Að viðbættri almennri framfærslu bætist kostnaður eins og húsnæðislán, húsaleiga, bílalán, meðlag, námslán, skólamáltíðir fyrir börn ásamt öðrum skuldbindingum sem tengjast því að lifa með mannlegri reisn.

Við skoðuðum margar leiðir til að mæta þessum fyrirsjáanlega vanda t.d. sértækar bætur og frystingar eða afskriftir mismunandi skuldbindinga, skuldaaðlögun og fleira sem reynt hefur verið að gera áður en með misjöfnum árangri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í meira en mánuð höfum við beðið svara.

Hugmyndin að tillögu okkar varð til þegar við vörum að leita leiða til að mæta skuldbindingavanda fólks á leigumarkaði.

Niðurstaðan var að gera ekki greinarmun á hvernig skuldbindingar fólk er með, og framfærslan verði einnig tryggð, með því að mæta tekjufalli með framfærslustuðningi sem nær til beggja.

Við höfðum nauman tíma til stefnu og kynntum hugmyndirnar fyrir stjórnvöldum fyrir rúmlega mánuði síðan. En á þeim tímapunkti töldum við okkur vera að falla á tíma á meðan vandinn er framfærsluvandi en ekki skuldavandi, sem er undanfari fjármálakreppu.

Síðan þá hefur lítið sem ekkert gerst og ekkert bólar á vilja stjórnvalda til að fara þessa leið eða koma með aðrar hugmyndir til að mæta því fyrirsjáanlega.

Í meira en mánuð höfum við beðið svara á meðan hundruð milljarða björgunarpakkar ríkissjóðs gagnvart atvinnulífinu hafa komið á færibandi.

Þó svo að eitthvað hafi dottið af færibandinu til handa fólkinu nær það varla til að plástra þann vanda sem við stöndum frami fyrir.

Að koma í veg fyrir að fólk þurfi að velja á milli þess að greiða reikninga eða kaupa í matinn.

Að koma í veg fyrir að innheimtubréf og vanskilakostnaður hrannist upp hjá fólki á meðan tímabundið ástand ríður yfir.

Að tryggja þeim tugþúsundum sem misst hafa lífsviðurværi traustari grunn að spyrna sér í þegar birta fer til í hagkerfinu.

Tillögur okkar eru einfaldar og framkvæmanlegar. Þær eru skynsamar og fyrirbyggjandi.

Þær eru lífsnauðsynlegar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: