Fréttir

Eitt hótel dugar fyrir allt erlenda ferðafólkið

By Ritstjórn

October 13, 2020

turisti.is:

Vanalega þarf að bíða í fjórar vikur eftir gistináttatölum Hagstofunnar fyrir undanfarin mánuð. Nú hefur Hagstofan aftur á móti tekið upp á því að birta bráðabirgðatölur fyrir nýliðinn mánuð mun fyrr.

Og samkvæmt þessum fyrstu tölum fyrir september þá er útlit fyrir að gistinæturnar hafi í heildina verið um áttatíu þúsund talsins miðað við 95 prósent öryggismörk.

Þar af stóðu Íslendingar sjálfir fyrir 62 þúsund nóttum og útlendingar 18 þúsund gistinóttum. Til samanburðar voru gistinæturnar 434 þúsund í september í fyrra. Samdrátturinn nemur því 82 prósentum. Hafa ber í huga að hér er eingöngu horft til hótela en ekki gistiheimila, íbúða og svo framvegis.

Ef gistnætur útlendinga hafa í raun ekki verið fleiri en 18 þúsund í september þá má segja að allur hópurinn hefði komist fyrir á Fosshóteli í Reykjavík en þar eru 320 herbergi. Fullnýtt stendur þetta stærsta hótel landsins þar með undir um 19 þúsund gistinóttum ef tveir gestir að jafnaði eru um hvert herbergi.

Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.