Einar Brynjólfsson oddviti Pírata í Norðaustri segir í Mogga dagsins:
„Hér á landi hefur orðið til stétt ólígarka sem tengjast sjávarútvegi. Í þessu kjördæmi höfum við skýrasta dæmið um slíkt, sem eru eigendur Samherja, fólk sem byggði upp stórkostlega fyrirtækjasamsteypu á grundvelli aðgangs að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar. Svo kemur upp úr dúrnum að þetta stórveldi varð ekki til með dugnaði einum saman. Þarna kom til eitruð blanda yfirgangs og græðgi sem á sér fjölmargar birtingarmyndir. Við verðum að vera minnug þess að gamli fjórflokkurinn – og afsprengi hans – kom þessu kerfi á, hefur viðhaldið því og stendur um það vörð, enda eftir miklu að slægjast í formi rausnarlegra styrkja til þessara flokka og einstakra frambjóðenda þeirra,“ segir Einar og heldur áfram:
„Nú er staðan sú að sjálft lýðræðið er í hættu vegna þess gríðarlega valds sem hefur safnast á hendur ólígarkanna, sem skeyta hvorki um skömm né heiður, og vegna þess að stjórnmálafólk hefur hvorki dug né þor til að verjast yfirganginum. Til að bæta gráu ofan á svart er margt fólk svo blindað af meðvirkni að það sér ekki ástæðu til að rísa upp gegn þessu ástandi. Svona framkoma verður ekki réttlætt með rausnarlegum styrkjum til bæjarhátíða, íþróttastarfs og slíks. Hún verður ekki heldur réttlætt með því að fjölmargt starfsfólk, jafnvel heilu og hálfu sveitarfélögin, hafi lifibrauð sitt vegna umsvifa þessa fyrirtækis eða annarra í svipaðri stöðu. Engin réttlæting er til þegar farið er út af sporinu.“