Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Á föstudagskvöldið sá ég frétt um að búið væri að gera einstaklingum svokölluðum; „kleift að kaupa hlutabréf í Icelandair fyrir 100 þúsund kr. kjósi þeir að gera svo“.
Ég grínaði á Facebook í kjölfar lestursins, eins og vinnuafls-kona sem á ekkert að selja nema aðganginn að vinnuaflinu sínu, sem veit að í samfélagssáttmálanum stendur að vinnuaflið hennar sé svo lítils virði að hún skuli aldrei láta sig dreyma um að upplifa fjárhagslegt frelsi eða áhyggjulausan dag. Ég gleymdi mér og grínaði eins og vinnukonu-kona sem vann erfiðisvinnu, notaði líkamann sinn í allt sem hún gerði, líka þegar hún var á túr, þegar það var svo mikið að gera í vinnunni að hún komst ekki til að skipta um dömubindi og lenti í vandræðum sem leyst voru með því að binda bara peysuna um mittið og flissa. Ég grínaði eins og vinnukonu-konan sem átti ekki krónu í mánaðarlok og þurfti samt að kaupa dömubindi, túrtappa og íbúfen, konan sem reiddist eigin móðurlífi fyrir sjálfstæðan vilja. Ég grínaði eins og kona sem hefur lært að ef þú ætlar að þola allt helvítis bullið sem arðránskerfið í samvinnu við hin gömlu og góðu gildi feðraveldisins finnur uppá án afláts, án þess að fara á bömmer sem endist þér lífið á enda er best að grína mikið og oft. Ég grínaði eins og kona sem getur ekki annað þegar hún horfist í augu við að ríkisábyrgðin er komin til að vera fyrir Boga og eigendur Íslands en engin ætlar að taka ábyrgð á því að hótelþernan sem svitnaði fyrir hagvöxtinn á núna svo lítið að hún þarf að leita til útsendara Guðs föður heilags anda á jörðinni til að fá hjá þeim mat til að borða.
Ég grínaði eins og vinnukonu-konan sem átti ekki krónu í mánaðarlok.
Á laugardaginn sá ég svo að bæði DV og Vísir höfðu slegið gríninu mínu upp sem frétt („Sólveig reið og bitur“) og að ýmsir notuðu tækifærið til að viðra þá skoðun að ég væri geðveik og ógeðsleg, heimsk og bjáni, full og veruleikafirrt.
Og þá hugsaði ég að það væri merkilegt að orðið tíðablóð væri í alvöru svo stuðandi að fjólmiðlamenn upplifðu notkun á því sem tilefni til fréttaskrifa. Og ég hugsaði að kannski væri það vegna þess að ég er komin af léttasta skeiði, „það fellur hratt á hana“, og ógeðslegt þegar konur sem eru ekki lengur ungar tala um túr.
Svo hugsaði ég að ég hefði auðvitað getað sagt margt annað en að atvinnulausar konur ættu að skrifa undir samning við strákana hjá Icelandiar með tíðablóði, svo að þær gætu fengið hærri atvinnuleysisbætur. Ég hefði getað sagt ýmislegt um allt það rugl sem viðgengst allt í kringum okkur, á föstudagskvöldi hefði verið hægt að finna margt til að gera verulegar athugasemdir við, margt annað en þessa birtingarmynd örvæntingar auðvaldsins sem fréttin af Boga og hundraðþúsund kallinum er.
Ég hefði getað byrjað á að segja: Langt er nú seilst ofaní vasa vinnuaflsins. Ekki nægir að ætla sér að fá lífeyrissjóðina okkar til að halda flaggskipi íslensks kapítalisma á siglingu, það á að reyna að lokka fólk til að setja sínu fáu aura beint í braskið. Fyrr má nú aldeilis vera hvað menn eru óforskammaðir.
Svo hefði ég getað haldið áfram á föstudags-kvölds-yfirferð um íslenskt samfélag.
Ég hefði getað sagt: Fjármálaráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur fengið sér sérstakan Hagfræðingahóp til senda skýr skilaboð til eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins um að „the best and the brightest“ séu byrjuð „að skoða enn betur þessa hagrænu vinkla sem gefa okkur vísbendingar um hvaða kraftar eru að togast á við sóttvarnaaðgerðirnar“ svo hægt verði að átta sig á hvar skuli hagræða og einkavæða, hvar skuli frelsa úr fjötrum arðbær verkefni sem ríkið hefur haft á sinni könnu, hvernig hægt verði að stilla kerfið svo hægt sé að takast á við það þegar „declining rates of profit“ banka upp á með offorsi og dólgslátum líkt og nú gerist í veröldinni. Mörgu má kvíða en einna helst niðurstöðum Hagræðingarhópsins hans Bjarna.
Ég hefði getað sagt: Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að flokkur sem hefur sótt fjölda atkvæða til kvenna sem upplifa djúpa og innilega löngun í raunverulegt jafnrétti, á ekki til einn talsmann, ekki einn, sem kemur fram í afdráttarlausri samstöðu með þeim atvinnulausu konum sem nú eiga ekki einu sinni nægilega margar krónur til að sjá fyrir sér og börnum sínum.
Þá skoðun hef ég bæði full og edrú, á túr eða ekki.
Ég hefði getað sagt: Það er ótrúlegt að verða vitni að því að flokkur sem segist lifa eftir gildum kvennabaráttunnar skuli fara fyrir ríkisstjórn sem setur lög á Alþingi um ríkisábyrgð til fyrirtækis sem hefur gerst uppvíst að einni alvarlegustu aðför að lögum þeim er gilda á Íslandi um samskipti kapítalista og vinnuafls, með ógeðslegri kúgunar-árás á kvennastétt.
Ég hefði getað sagt: Mikil er skömm þeirra sem bera ábyrgð á þeirri samfélagsgerð sem leyfir ástand eins og það sem nú ríkir; konan sem kynnti ofninn sem knúði vélina sem snéri hjólunum sem skópu hagvöxtinn, sú sem aðeins á sitt dýrmæta vinnuafl til að lifa af, hefur verið send í betli-ferð, send af stað til að biðja um hjálp, biðja um mat, um 5.000 krónur, skólatösku fyrir barnið sitt, á meðan að milljón-krónu mennirnir fá stimplað plagg frá stjórnvöldum, svo að þeir fái áfram að stýra skipinu, án stefnu, án áttavita. Því hvers eiga þeir eiginlega að gjalda: „Þetta er víst engum að kenna“.
Ég hefði getað sagt margt, og flest án þess að minnast einu orði á tíðablóð.
En mig langaði að grína á föstudagskvöldi og svo ég segi satt frá þá er staðreyndin sú að mér finnst bókstaflega ekkert að því að segja að kannski ættu atvinnulausar konur að nota tíðablóðið sitt til að skrifa undir samning við Icelandiar svo að þær fái hærri atvinnuleysisbætur. Allavega ekki í samanburði við þá viðbjóðslegu atburðarás sem ég hef fylgst með undanfarna mánuði, í samskiptum eigenda Íslands við kven-vinnuaflið. Og þá skoðun hef ég bæði full og edrú, á túr eða ekki.