- Advertisement -

Eins og Dylan væri að kveðja

Gunnar Smári skrifar:

Ég var of ungur og of langt í burtu til að tengja við þennan óð sem sálumessu yfir Kennedy, en þar sem ég var sem barn alinn af Agli bróður á Bob Dylan hefur hann alltaf fylgt mér; hann var eitt af því fyrsta sem ég kynntist sem ýjaði að einhverri dýpt og visku á bak við hversdagslegar raunir, visku og dýpt sem ég hef síðan leitað að en auðvitað ekki fundið. Og þegar ég hlustaði á þetta lag, sem er alls ekki langt, eiginlega heldur stutt, og reyndi að grípa eitthvað af linnulausum vísunum í gömul lög, fannst mér eins og Dylan, þetta mikla sagnaskáld bandarískrar sönglagahefðar væri að leysast upp og renna saman við fljótið sem bar hann hingað, allt sem hefur verið sungið og sagt. Þegar Dylan hafði skapað og endurskapað sig aftur og aftur, varð hann að lokum eins og sagnarandinn, hans bestu verk síðustu árin voru líklega útvarpsþættirnir þar sem hann spilaði lög sem höfðu gert hann og sem hann var orðinn að. Þegar ég hlustaði á þetta lag fannst mér eins og Dylan væri að kveðja, að hann þyrfti ekki lengur að vera til, að hann hefði ekkert að segja sem ekki hefði verið sagt áður og betur af öðrum. En hann þyrfti að koma því frá sér, einu sinni enn, rykinu sem þéttist í honum áður en vindurinn feykti því burt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: