„Í síðustu viku stóðu ríkisstjórnin og þingmenn hennar, öll sem ein, á bak við verk dómsmálaráðherra. Þó að vantrauststillagan sem Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðu fram hafi grundvallast á því að dómsmálaráðherra fyrirskipaði Útlendingastofnun að afhenda Alþingi ekki gögn, og braut með því gegn upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu, þá hljótum við óhjákvæmilega að horfa á þá samstöðu í stærra samhengi,“ segir í nýrri Moggagrein Björns leví Gunnarssonar Pírata.
„Þó að brotið gegn upplýsingaskyldunni sé eitt og sér nægt tilefni til vantrausts – í öllum þróuðum lýðræðisríkjum í heiminum nema á Íslandi – þá eru mörg önnur mál sem ættu að leiða til vantrausts gagnvart dómsmálaráðherra. Rafbyssumálið er gott dæmi. Ef stjórnarliðar treystu dómsmálaráðherra þrátt fyrir brot gegn upplýsingaskyldu sinni þá treysta þau einnig ráðherra þrátt fyrir samráðsleysi um mikilvæg stjórnarmálefni. Það hlýtur þá að þýða að þau taki ekki mark á forsætisráðherra sem finnst rafbyssumálið vera mikilvægt stjórnarmálefni sem ætti að ræða nánar.“