Einokun og fákeppni kosta okkur mikið
Gunnar Smári skrifar:
Hér er það metið að byrði Bandaríkjamanna af fákeppnis- og einokunarfyrirtækjunum sé árlega um 5 þúsund dollarar á hvert mannsbarn, um 625 þúsund krónur á ári. Þetta er ekki byrðar almennings af auðvaldinu, þær eru miklu meiri; aðeins aukabyrði sem Bandaríkjamenn bera vegna drottnandi stöðu fárra stórra fyrirtækja á nánast öllum mörkuðum.
Það er ástand sem við Íslendingar þekkjum vel, það er og hefur verið normið hér. Þetta aukaálag vegna auðvaldsins, aukakostnaður sem leggst á almenning þegar auðvaldið er orðið súper-svínslegt, er því án nokkurs vafa mun hærra hér en í Bandaríkjunum. Hér er selja fákeppnisverslanir dýrasta mat í heimi, hér eru tól og tæki dýrari en annars staðar, fákeppnisbúðir með byggingarvörur selja dýrar en annars staðar þekkist, tryggingarnar sem fákeppnisfélögin bjóða er hærri og með lakari vernd en annars staðar og hvergi í veröldinni leggja bankar viðlíka byrðar á samfélag sitt en á Íslandi.
Þetta álag, svínslega fákeppnis-álagið er örugglega tvöfalt, ef ekki þrefalt á við það sem Bandaríkjamenn bera. Það leggst ofan á almenna auðvalds-álagið, það sem almenningur þarf að borga fyrir auðvaldið. Og þá er aðeins rætt um peningana. Við þetta bætist skaði auðvaldsins á náttúru- og loftslagsgæðum, fyrir utan niðurbrot þess á samfélagi og menningu.
Hvernig nennir fólk að bera þetta lið? Ekki spyrja mig, svarið hvert fyrir sig: Nennið þið þessu lengur?