Hann forðaðist að mæta í leikfimi. Hann forðaðist að mæta í læknisskoðanir. Hvers vegna? Vegna þess að hann vissi að þá sæju bekkjarfélagarnir ummerki eftir barsmíðarnar.
Þennan dag var læknisskoðun. Hann var kvíðinn. Þegar kom að því að strákarnir í bekknum hans, og líka hann að sjálfsögðu, áttu að fara úr öllum nema nærbuxum truflaðist hann.
Hann hljóp fram á gang. Hljóp allan ganginn, ýtti upp útidyrahurðinni og lagði á flótta, óttasleginn.
Krakkarnir í hans bekk og úr öðrum bekkjum eltu hann. Með vilja kennara og skólastjóra. Enginn má við margnum. Hann náðist. Óviljugur var hann dreginn aftur í skólann. Hann átti enga undankomuleið. Varð að afklæðast. Hann gat ekki lengur hulið merkin um barsmíðarnar. Enn og aftur varð niðurlæging hans, fyrir framan bekkjarfélaganna, algjör.
Skólaráðendur, kennarar, aðrir nemendur og bara allir létu þetta viðgangast.
Drengurinn hefur átt erfiða æfi. Hörmungarnar fundu hann aftur og aftur.
Þetta er brot af þrautagöngu jafnaldra míns. Samfélagið brást algjörlega ungum dreng með alvarlegum afleiðingum.