- Advertisement -

Einn framboðslisti dugi í Reykjavík

„Í reynd má segja að stjórnmálasamtök hafi haft kjördæmaskiptinguna að engu og margir kjósendur gera sér alls ekki glögga grein fyrir kjördæmamörkunum.“

Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Fjórir þingmenn, tveir úr Vg og tveir Píratar, hafa lagt fram lagafrumvarp sem heimilar stjórnmálaflokkum að bjóða einn sameiginlega lista fram í báðum kjördæmum Reykjavíkur.

„Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi hefur verið gagnrýnd fyrir þá sök að hún eigi sér ekki stoð í vitund borgarbúa heldur sé hún til málamynda,“ segir í greinargerðinni. „Enginn borgarbúi vísar til sjálfs sín sem íbúa í Reykjavíkurkjördæmi norður eða Reykjavíkurkjördæmi suður. Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í þingkosningum í Reykjavík viðhafa flest hver sameiginlegt val (t.d. prófkjör eða forval) fyrir bæði kjördæmin og kosningabaráttan í Reykjavík er iðulega sameiginleg fyrir bæði kjördæmin. Frambjóðendur sinna kosningastarfi í báðum kjördæmum. Þá getur það verið tilviljunum háð hvort röð frambjóðenda úr prófkjörum haldist í kosningaúrslitum, allt eftir því hvernig fylgi viðkomandi samtaka skiptist milli kjördæmanna tveggja. Í reynd má segja að stjórnmálasamtök hafi haft kjördæmaskiptinguna að engu og margir kjósendur gera sér alls ekki glögga grein fyrir kjördæmamörkunum.“

Verði frumvarpið að lögum og heimildin sem í því felst nýtt yrði efsti maður á lista tiltekinna stjórnmálasamtaka fyrsti þingmaður þeirra samtaka í því kjördæmi sem listinn fær fleiri þingmenn kjörna eða í því kjördæmi sem listinn fær hærra hlutfall, sé þingmannatala samtakanna jöfn í báðum kjördæmum. Þá fengi næsti maður á lista það sæti sem samtökin eiga fyrst kost á í hinu kjördæminu. Þannig er gert ráð fyrir að á hinum sameiginlega lista sé fléttað milli kjördæma, að því gefnu að framboðið fái þingsæti í báðum kjördæmum. Hljóti framboðið einungis þingsæti í öðru kjördæmanna er ljóst að frambjóðendur raðast í það kjördæmi í sömu röð og hinn sameiginlegi framboðslisti segir til um. Hið sama á við ef framboð hlýtur mun fleiri þingsæti í öðru kjördæminu en hinu. Fléttast þá listinn með framangreindum hætti þar til þingsæti listans í öðru kjördæminu þrjóta og raðast frambjóðendur þá í hitt kjördæmið, samkvæmt röð framboðslistans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flutningsmenn eru: Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson og Helgi Hrafn Gunnarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: