Mogginn hefur tvo daga í röð fjallað um hversu margt fólk kýs frekar að giftast hjá sýslumanni en í kirkjum. Grafið hér til hliðar er fengið úr Mogganum.
Þessi tilvitnun í Moggann er sérlega eftirtektarverð:
„Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands er ágústmánuður stærsti einstaki mánuðurinn í þessu tilliti en alls stofnuðu 714 einstaklingar til hjúskapar í ágúst í sumar. Júlí og júní koma næstir, en þá stigu 586 og 501 einstaklingur þessi skref. Svipaða sögu er að segja frá síðasta ári, en þá var júlí langvinsælastur er 802 einstaklingar giftu sig. Í ágúst voru þeir 532 og 500 í júní.“
Þarna segir meðal annars að 501 einstaklingur hafi gengið í hjónaband. Þar sem tveir ganga aldrei upp í 501 er ljóst, samkvæmt Mogganum, að annað hvort hafi einhver gifst sjálfum sér eða að þrír eða kannski fimm hafi gengið í hjónaband.
„Hjónavígslur eru mun fleiri yfir sumarmánuðina heldur en að hausti og vetri. Kirkjan nýtur mikilla vinsælda til sumarbrúðkaupa, en að vetri hefur giftingum hjá sýslumanni fjölgað,“ segir í Mogganum.
Í Mogganum í gær var greint frá því að í október og nóvember síðastliðnum hefðu fleiri stigið þessi stóru skref hjá sýslumanni heldur en hjá presti.