Viðhorf „Einkarekstur er í eðli sínu gróðarekstur. Ekkert venjulegt fyrirtæki tekur upp á því að semja við hið opinbera um rekstur nema það ætli sér að hafa af því ábata með einum eða öðrum hætti.“ Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Steingrímur rifjar upp að fyrir tæplega ári síðan hafa Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lýst því yfir að hann teldi að ýmis rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu væri betur sett hjá einkaaðilum en hinu opinbera. „Með öðrum orðum var heilbrigðisráðherra að mæla með auknum einkarekstri heilbrigðiskerfisins og þar með einkavæðingu þess. Einkarekstur er ekkert annað en einkavæðing þó í felulitum sé. Svipuð sjónarmið hafa reglulega skotið upp kollinum hérlendis og og urðu beinlínis að trúboði með tilkomu nýfrjálshyggjunnar enda skilgetið afkvæmi hennar.“
Steingrímur fer víða í grein sinn og nefnir reynslu Norðurlandaþjóða af einkarekstir. Hann finnur einkarekstri flest til foráttu og segir:
„Saga einkareksturs í heilbrigðiskerfinu sýnir að þar gerist iðulega þrennt: Í fyrsta lagi er allt skorið niður sem ekki er sérstaklega kveðið á um í samningnum við viðkomandi fyrirtæki. Einkafyrirtæki hafa að markmiði að hámarka gróða sinn og munu því óhjákvæmilega leitast við að nýta sér glufur í samningum við ríkið til að skera niður í þjónustunni. Í öðru lagi eykst launamunur milli almennra starfsmanna svo sem sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og ræstitækna annars vegar og yfirmanna og ýmissa „ráðgjafa“ hins vegar. (Og þar sem konur eru fjölmennari í fyrrnefnda hópnum eykur þetta launamun kynjanna.) Í þriðja lagi gera þessi fyrirtæki allt sem þau geta til forðast að greiða eðlilega skatta af hagnaði sínum, og nýta til þess ýmsar ósvífnar aðferðir eins og að láta skúffufyrirtæki í skattaskjólum lána dótturfyrirtækjum á háum vöxtum til að þurfa ekki að greiða skatt af hagnaðinum í upprunalandinu. Samkvæmt nýlegri úttekt Dagens Nyheter greiddu fimm stærstu einkareknu velferðarfyrirtæki Svíþjóðar aðeins um 440 milljónir íslenskra króna í skatt, en áætlaður hagnaðar þeirra nam 20 milljörðum. Það gerir um 2,2% heildarskatt að meðaltali.“