„Það gengur ekki að það ríki óvissa um hvort þingforseti sé að brjóta stjórnarskrá.“
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og einn af varaforsetum Alþingis, er ekki sáttur við forseta Alþingis, Steingrím J. Sigfússon, þar sem tilefnið er Þingvallafundurinn í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Á sumarfundi forsætisnefndar í síðustu viku spurði ég til dæmis ítrekað hvað væri að gerast og hvort um ákvörðunartöku væri að ræða bara til að vita hvort ég þyrfti mögulega að láta bóka andmæli. Ég get ekki tekið sénsa með þetta eins og gerðist á sumarfundinum í fyrra þar sem viðraðar voru einhverjar hugmyndir um að forseti danska þingsins kæmi kannski hingað til hátíðarfundar og forseti ynni áfram að undirbúningi, að þá sé ég bara búinn að samþykkja að ég fái ekkert meira að vita af málinu fyrr en degi fyrir fundinn,“ segir Jón Þór Ólafsson í Fréttablaðinu.
Þar segir Jón Þór einnig: „Okkar þingflokkur er alveg harður á því að þessu þarf að svara. Það gengur ekki að það ríki óvissa um hvort þingforseti sé að brjóta stjórnarskrá,“ segir Jón Þór og á við ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar að bjóða Piu Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfundinn.
Jón Þór segist ekki vera viss um hvort eftirmál verði af heimsókn Piu þegar þing kemur saman. „Ég er ekki búinn að hugsa þann vinkil sjálfur en hitt er alveg ákveðið að það verður vinnuregla í okkar þingflokki að það verður ekkert ætlað samþykki framar í málum af hálfu okkar þingmanna.“