- Advertisement -

Eini utanríkisráðherrann sem þannig talar

Þorsteinn Víglundsson gagnrýnir Guðlaug Þór vegna ummæla um Brexit. „Höfum gefið út heila skýrslu,“ segir ráðherra.

„Utanríkisráðherra hefur í umræðum um þessi mál rætt talsvert um þau tækifæri sem felist í Brexit fyrir okkur Íslendinga,“ sagði Þorsteinn Víglundsson á Alþingi. „

„Ég hef reyndar ekki orðið var við sambærilegan málflutning hjá starfsfélögum hans innan hinna EES-ríkjanna en látum það liggja á milli hluta. Það hlýtur að vera alveg ljóst að ef breskt efnahagslíf á næstu árum mun veikjast umtalsvert vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þá getur það haft umtalsverð og neikvæð áhrif á íslensk fyrirtæki sem eiga í miklum viðskiptum við Breta enda er Bretlandsmarkaður einn okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður,“ sagði hann.

Hann spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra: „Hefur farið fram ítarleg greining innan utanríkisráðuneytisins á heildaráhrifum þess að Bretar gangi úr Evrópusambandinu, hverjar okkar helstu áskoranir verði og hvernig við getum brugðist við þeim?“

Hljóta að vera tækifæri

„Svo ég vísi til þess þegar ég var að tala um tækifæri Íslendinga þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þá veit háttvirtur þingmaður mætavel að það eru tollar á ákveðnum vörum inn á EES-markaðinn fyrir okkur,“ sagði ráðherrann.

„Það hljóta þá að vera tækifæri, eins og háttvirtur þingmaður mætavel veit, ef þeir tollar verða lækkaðir eða afnumdir sem ætti auðvitað að gera. Evrópusambandið hefur ekki tekið það í mál fram til þessa. Á sama hátt veit háttvirtur þingmaður að Bretar hafa lagt á það áherslu að þeir ætli að vera alþjóðlegir í viðskiptum, leggja meiri áherslu á aukna fríverslunarsamninga og háttvirtur þingmaður veit að það voru gerðir fleiri fríverslunarsamningar sem þýðir tækifæri fyrir útflutningsþjóðina Ísland sem er fríverslunarþjóð og gott dæmi um það að fríverslun skilar árangri. Við erum skýrt dæmi um það.“

Höfum unnið heila skýrslu

„Hvað varðar heimavinnu utanríkisráðuneytisins hefur hvorki meira né minna en verið gefin út heil skýrsla um það sem háttvirtur þingmaður hefur undir höndum þar sem nákvæmlega er farið yfir það hvernig vinnan hefur verið,“ sagði ráðherrann. „

Við höfum lagt mikla áherslu á þetta þar sem Bretland er okkar næstmikilvægasta viðskiptaland. Þar hafa verið gerðar hinar ýmsu sviðsmyndir en sömuleiðis hefur þetta greint, ekki bara innan Stjórnarráðsins heldur líka með hagsmunaaðilum vegna þess að það skiptir máli að við fáum þá strax að borðinu og það var gert. Sú skýrsla liggur fyrir og búin að liggja fyrir um nokkurn tíma. En áfram heldur vinnan,“ sagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: