Sólveig Anna skrifar: Mig langar að segja: Innan hugmyndaheims þeirra sem stjórna eru engin svör handa þeim sem strita til að hafa í sig og á. Láglaunakonan þarf því að horfast í augu við að ekki er hægt að feta áfram sömu braut, ekki er hægt að bíða eftir því að stjórnmálin færi henni réttlæti. Hún þarf að horfast í augu við þá staðreynd að á meðan stjórnmálin eru ennþá heltekin af því að viðhalda stöðugleika með því að lifa eftir heimssýn auðhyggjunnar um að best sé að ríkt fólk verði ríkara og eignalaust vinnuafl haldi áfram að fokka sér, á meðan auðstéttin er heltekin af því að stöðugleiki verði aðeins tryggður með því að kæfa í fæðingu allar kröfur um réttlátari skiptingu gæðanna, á meðan enginn vill stjórna einu né neinu með það í fyrirrúmi að leyfa skúringakonunni og barnapíukonunni að eiga skemmtilegt líf, á meðan þau sem stjórna segja þessum konum að skúra sig innað miðjunni svo að þær megi þar lifa sem „hagsmunaaðilar vinnumarkaðarins“ í lífstíðarlöngu hjónabandi við aðra hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, menn sem þær voru aldrei spurðar hvort þær vildu giftast, menn sem fara ekki um þær neitt sérstaklega mjúkum höndum; já, hvað þarf láglaunakonan að horfast í augu við?
Kannski það að hún tilheyrir stétt. Kannski það að hún þarf stéttabaráttu. Kannski það að hún þarf stéttabaráttu af því að öllum sem eiga og öllum sem ráða og öllum sem mega á Íslandi er meira umhugað um „einingu þjóðarinnar“ en það að sumt fólk á ekki einu sinni nóg af þúsundköllum til að duga í einn mánuð.
Kannski þarf hún að horfast í augu við að í lífi hennar bókstaflega kristallast munurinn á stétt og stétt, í því kristallast munurinn á þeim raunveruleika sem hún, vinnuaflið, gerir þjóðfélaginu sýnilegan einfaldlega með lífi sínu og lífskjörum, og hins vegar veruleika valdastéttarinnar; við erum öll að vinna að sama markmiði, Guð blessi Ísland, það er hlutverk láglaunakonunnar að sýna undirgefni, hlýðni, nægjusemi og skal hún því samstundis láta af allri uppivöðslusemi því annars munu fjármagnseigendur ekki eiga annara kosta völ en að koma eigum sínum undan til Panama og Tortóla, svona rétt áður en flugsamgöngur leggjast af afþví hún er svo klikkuð að vilja fá 425.000 krónur í laun og hvaða kona vill eiginlega bera ábyrgð á svoleiðis hamförum?
Kannski þarf hún að horfast í augu við að tvöfeldnin umlykur líf hennar: Hún er einn af hagsmunaaðilum vinnumarkaðarins með 358.000 krónur á mánuði á meðan hinir hagsmunaaðilarnir eru með svona frá einni komma sex milljónum uppí sirka sjö milljónir, hún hefur aðgang að sjúkrasjóð á meðan hinir hafa aðgang að þjóðarsjóð, hún hefur aðgang að tveggja herbergja leiguíbúð meðan hinir hafa aðgang að íbúðum sem fjárfestingartækifærum, hún sjálf getur aldrei orðið sameiningartákn en það er mikilvægt að hún sýni sameiningartáknum virðingu þegar þau sigla hjá, að aukinn kaupmáttur annara hlýtur að vera huggun harmi gegn þegar hún drífur sig af stað í vinnu númer tvö, að þegar hún kemst á eftirlaun og fær því sem næst ekki neitt fyrir öll skúruðu gólfin og öll pössuðu börnin þá á hún að muna að Ísland er til algjörrar fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi þegar kemur að jafnrétti kynjanna og mun eflaust sjálft geta sæmt sig Fálkaorðu fyrir það afrek mjög fljótlega.“