Ekki er annað að sjá en það sé einhugur í Miðflokki um stöðu formanns flokksins. Hann sjálfur segist vera í öngum sínum yfir að Lilja Alfreðsdóttir sagði hann vera ofbeldismann.
„Ég hef verið kallaður fleiri ljótum nöfnum en ég hef tölu á. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa áður verið kallaður ofbeldismaður. Ekkert sem um mig hefur verið sagt í pólitík hefur sært mig eins mikið,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook.
Mogginn ræðir við nokkra kjörna fulltrúa Miðflokksins hér og þar á landinu. Einhverjar spurningar eru upp um stöðu Gunnars Braga og Bergþórs Ólasonar. En einhugur er um Sigmund Davíð. Flokkurinn stendur heill að baki honum.
Fjölmiðlar farið offari
Í Mogganum má lesa þetta, sem dæmi:
„Fjölmiðlar eru að fara offari í þessu máli að mínu mati. Það er svo sem það eina sem ég hef um þetta að segja og hef ekkert breytt minni afstöðu,“ segir Rúnar Már Gunnarsson, sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins í Fjarðabyggð og segir best að Sigmundur Davíð haldi áfram sem formaður Miðflokksins.
Spurður hvort málið ætti að hafa einhverjar frekari afleiðingar fyrir þingmennina Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason sem nú eru í leyfi vegna málsins svarar hann: „Það held ég ekki. Ég held það sé engin ástæða til þess, þeir drápu engan. Þeir eru farnir í leyfi og það er þeirra að ákveða hvenær þeir koma til baka ekki okkar. Þó við vildum segja þeim að fara, þá er það ekki okkar.“ Hann segir ekki koma til greina að vísa þeim úr flokknum þar sem sú niðurstaða muni hæglega vera verri kostur og vísar þar til reynslu Flokks fólksins.
Upptekin af spillingu
Mogginn talar líka við Vigdísi Hauksdóttur, sem segist vera búin að segja allt sem hún hafi að segja um málið. „Ég sinni mínu starfi fyrir Miðflokkinn hér í borginni og er að einbeita mér að því að kljást áfram við spillinguna hér í Reykjavík,“ segir hún.