Hvar ræktum við upp þessi gildi? Hér á fésbókinni? Í fjölmiðlun? Í stjórnmálum? Heima hjá okkur? Í skólunum?
Ragnar Þór Pétursson skrifar:
Einelti og önnur félagsleg útskúfun er samfélagsmein sem getur eyðilagt líf. Baráttan fyrir góðu samfélagi er baráttan fyrir að öll fáum við að tilheyra. Því miður er oft grunnt á grimmdina. Sú grimmd er ekkert mikið skárri sem fær fullorðið fólk til að heimta gamlatestamentis-refsingar gagnvart börnum sem eru gerendur í eineltismálum. Erfiðustu eineltismálin eru ævinlega, að minni reynslu, illskiljanlegur vefnaður misgjörða og hefnda þar sem manngæskan og umburðarlyndið nær engri rótfestu. Andstaða útskúfunar er ekki að vera látinn í friði – andstaðan er að fá að vera með, tilheyra. Það gerist ekki á grundvelli reiði og hörku, það gerist á grundvelli velvilja og umburðarlyndis. Horfum nú í kringum okkur. Hvar ræktum við upp þessi gildi? Hér á fésbókinni? Í fjölmiðlun? Í stjórnmálum? Heima hjá okkur? Í skólunum? Auðvitað erum við öll að reyna – en staðreyndin er samt sú að hin íslenska þjóð þjáist af næringarskorti þegar kemur að umburðarlyndi og hlýju.