„En fyrst og síðast er að verða æ ljósara að óþægilega margir stjórnmálamenn samtímans eru ekki lengur lýðræðissinnar í hjarta sínu og þar með ekki heldur þegar kemur að því að breyta orðum sínum í efndir. Þeir bjóða sig vissulega fram fyrir ólíka flokka eins og áður. En eins og við sjáum svo oft í nærumhverfinu þá eru þeir margir eins og í einum flokki núorðið, flokki sem aldrei býður fram.“
Þetta er tilvitnun í Reykjavíkurbréf morgundagsins. Víst er að lesi stjórnmálafólkið þessi skrif forsætisráðherrans fyrrverandi má búast við að einhverjum svelgist á kaffinu, ekki síst flokksfélögum Davíðs. Hann er bara rétt að byrja. Davíð berst gegn breytingum á stjórnarskránni.
„Við höfum séð það margoft í ógeðfelldu fitli þessa eineggja stjórnmálaliðs við stjórnarskrá landsins. Þær fréttir sem teknar eru að berast nú um væntanlega niðurstöðu þess samkrulls benda til að forðum stórflokkar ráðgeri að leggjast flatir fyrir Samfylkingu og Viðreisn og eru sársaukafullt merki þessa.“
Davíð er, sem og svo margir, margir aðrir, lítt hrifinn af „hátíðarfundinum“ á Þingvöllum í suma sem leið.
„Þjóðin sendi þau skilaboð sem eftir var tekið að hún hefði ekki nokkurn áhuga á misheppnuðu aldarafmælisbröltinu, þegar hún lét ekki sjá sig á Þingvöllum. Enda hví ættu Íslendingar að vilja fagna fullveldi með þeim sem ekkert vilja sjálfir hafa með það að gera?“
Enn er skotið. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hlýtur að taka þetta til sín. Milli línanna stendur skýrum stöfum; þriðji orkupakkinn.
Jæja, áfram með Davíð, sem varð 71 árs á fimmtudaginn.
„Myndin af einflokknum hímandi í einsemd á rándýrum pöllunum við Almannagjá gat ekki aumari verið. Hann skundaði á Þingvöll en strengdi engin heit sem eiga þar heima. Og sjálfsagt er ekki tilhlökkunarefni til annars afmælishalds séu formerkin svona.“
Ritstjórinn er ekki búinn með allt púðrið.
„En hitt er rétt, það stendur hvergi að stjórnmálamenn eigi að vinna af heilindum enda er svo komið og er enn eitt furðuverkið að þingmenn eru búnir að framselja hluta af tilveru sinni til utanaðkomandi nefndar, og eru þá væntanlega bundnir af samvisku hennar en ekki sinni eins og stjórnarskráin, sem margir þeirra virðast fyrirlíta, segir fyrir um. Þá vitleysu ræddu þeir aldrei við kjósendur sína eða sinn flokk, nema þá einflokkinn, sem þeir þora ekki fyrir sitt litla líf að skilja sig frá.
Fyrst svona er komið, er þá ekki miklu betri kostur að fá að kjósa þessar siðanefndir og hina sem Moskvu-Jón stýrir bara beint og sleppa hinum?
Því fyrr því betra.
Láta svo siðanefndirnar halda útifund á Þingvöllum og sjá hverjir mæta.“
Svo mörg voru þau orð.