„Í Reykjavík er rúmlega þriðja hver íbúð, hátt í eitt þúsund, í byggingu í póstnúmerinu 101. Megnið af því sem eftir stendur er einnig á svokölluðum þéttingarsvæðum, en innan við tíunda hver íbúð sem verið er að byggja í borginni er í Grafarholti eða Úlfarsárdal, þar sem verið er að brjóta nýtt land undir byggingar.“
Þannig segir í leiðara Moggans í dag. Þar er hart deilt á meirihlutann í Reykjavík. Og ekki er efast um afleiðingar stefnu borgarinnar:
„Vandinn á húsnæðismarkaðnum er vissulega pólitísk ákvörðun sem tekin var og fylgt fram af mikilli hörku þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð. Húsnæðisvandinn er dæmi um afleiðingar rangrar forgangsröðunar og þess að leyfa stórskaðlegri blöndu af draumsýn, kreddum og fordómum að stjórna uppbyggingu í höfuðborginni. Og þrátt fyrir góðan vilja hjá ríkisvaldinu og aðilum vinnumarkaðarins verður vandinn ekki leystur á meðan stærsta sveitarfélagið situr við sinn keip í þessum efnum.“