Einangruð í ömurlegu partýi
„Einhvers staðar í öllu þessu ferli hefði einhver átt að segja að segja stopp, hingað og ekki lengra.“
Ekki virðist almennur fögnuður með þinghaldið á Þingvöllum. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
„Firringin er algjör. Og skorturinn á samhengi er algjör. Fær um að fyrirlíta einn vondan kall en algjörlega ófær um að taka upplýsta prinsip afstöðu gegn óvinum alþýðunnar ætla þingmenn að loka sig inní Almannagjá, burt frá okkur venjulegu vesalingunum, til að hlusta á röflið í Piu, sem meðal annars heldur því fram að múslimar „ljúgi, svindli og blekki“.
Ræðugesturinn vekur ekki gleði meðal fólks. Margrét Tryggvadóttir, sem er varaþingmaður Samfylkingarinnar, skrifar:
„Stundum getur Alþingi verið svo stórkostlega taktlaus stofnun. Sá söguþráður sem nú er að teiknast upp er þannig að það væri ekki hægt að ljúga þessu – þetta væri bara einum of ótrúlegt til að ganga upp nema í illa sömdum farsa. Ég veit ekkert hvenær þessi hátíðardagskrá var ákveðin og hver var forseti danska þingsins þá. En mitt í óskiljanlega kjaradeilu við ljósmæður, í kjölfar gríðarlegra hækkanna á launum ráðherra og þingmanna, á tímum hættuástands á Landspítalanum, er bara ekki hægt að halda 80 milljón króna hátíð á Þingvöllum fyrir þingmenn, afþakka þátttöku þjóðarinnar og bjóða Piu Kjærsgaard að halda hátíðarræðu. Einhvers staðar í öllu þessu ferli hefði einhver átt að segja að segja stopp, hingað og ekki lengra.“
„Það er algjörlega óboðlegt að þessi ömurlega manneskja, Pia sé einhver sérstakur hátíðargestur Alþingis! Á sama tíma og meðlimir íslenskrar stjórnmálaelítu fárast yfir öllum þeim viðbjóði og hatri sem Trump-svínið klínir allt í kringum sig, ætla þau engu að síður að hlýða á einn fremsta verkefnastjóra úr framvarðasveit Evrópska rasisma og mannhatursverkefnisins í tilefni fullveldisafmælisins, en pólitísk meginstraums-velgengni Piu hefur blásið innflytjendahöturum og múslimafóbum um alla veröld baráttuanda í brjóst. Hún er líkt og Trump, þjóðernissinni og natívisti; þau ösla um í sama viðbjóðslega drullupollinum,“ skrifar Sólveig Anna og endar á þessu:
„Verði þeim að góðu og við megum kannski bara vera þakklát fyrir að vera ekki boðið í þetta ömurlega partý. En þetta er engu síður gestalisti sem við gleymum ekki í fljótu bragði.“