Eina sem þau gera er að hringja í Eirík Bergmann
Gunnar Smári skrifar:
Mig langar að biðja ykkur um að velta fyrir ykkur farvegi umræðu á Íslandi, þeim sem við höfum til að byggja upp samtal í samfélaginu, sem síðan ætti að verða grunnur ákvarðana um hvert samfélagið okkar þróast. Vegna getuleysis meginstraumsmiðlanna til að halda uppi slíku samfélagi byggðum við nokkur upp Samstöðina og höfum haldið þar úti umræðu í tvo og hálfan mánuð með stórum hópi viðmælenda, sem hafa ausið af reynslu sinni, þekkingu og innsæi. Allt er þetta gert í sjálfboðavinnu af fólki sem þykir vænt um samfélagið, stendur ekki á sama á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum. Hér er Rauða borðið frá í gær, umfjöllun um ástandið í Bandaríkjunum.
Þessi þáttur kom í kjölfar þáttar sem Laufey Ólafsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir sjá um, Hin Reykjavík, og fjallaði um sama mál en út frá öðru sjónarhorni, en í þáttinn til þeirra komu Afríkanskir Ameríkanar sem búa á Íslandi og annað brúnt fólk og ræddi lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og fordóma gagnvart svörtum og öðru lituðu fólki, ekki bara þar heldur líka hér:
Ég hvet ykkur til að hlusta á þessa umræðu frá í gær á Samstöðinni, umræðu sem haldið er úti af áhugafólki og með þátttöku fólks með reynslu og þekkingu og bera hana saman við umræðu Ríkissjónvarpsins frá í gær um sama umfjöllunarefni.
Það er eitthvað mikið að okkar samfélagi, og eitt af því er að þær stofnanir sem ber skylda til að halda hér uppi vitrænni umræðu svo almenningur geti tekið afstöðu til mála eru ekki að sinna sínu hlutverki. Til hvers erum við að halda tveimur manneskjum á fullum launum til að halda úti Kastljósi ef það eina sem þau gera þegar Bandaríkin loga og eru á barmi borgarastríðs er að kalla enn einu sinni á Eirík Bergmann? Ég ljóstra ekki upp neinu leyndarmáli þótt ég segi ykkur að það tekur um sjö sekúndur. Berið þetta svo saman við það sem áhugafólk út í bæ gerir. Og veltið fyrir ykkur hvert það leiðir ef umræðu á Ríkissjónvarpinu er stýrt af fólki sem í raun vill ekki upplýsta umræðu, vill forðast það í lengstu lög að almenningur sé upplýstur, að kúgaðir fái rödd, að við séum að ræða okkar á milli um það sem skiptir máli.