- Advertisement -

Eimreiðarhópurinn var hópur hinna ættlausu innan flokksins

Gunnar Smári skrifar:

Þetta er Eimreiðarhópurinn, sem stóð fyrir nýfrjálshyggjubyltingunni innan Sjálfstæðisflokksins. Ég ákvað að setja svart fyrir augun á þessum mönnum því það er ekki víst að neinn vilji gangast við tengslum sínum við þennan hóp lengur.

En ég ætla ekki að segja neitt ljótt um þennan hóp, ekki að þessu sinni. Heldur þvert á móti að benda á hann rauf tök gömlu valdaættanna á Sjálfstæðisflokknum. Eimreiðarhópurinn var hópur hinna ættlausu innan flokksins, sem fyrir og eftir hafði verið undir stjórn gömlu ættanna.

Jón Þorláksson, fyrsti formaðurinn, var reyndar aðeins sonur hreppsstjórahjóna í Vesturhópi en Jón var giftur Ingibjörg Claessen, sem var bæði Briem í móðurætt (en Briem-ættin var valdamikil fram á daga Jóns) og dóttir ríkisféhirðis; bróðir hennar voru Eggert Claessen bankastjóri Landsbankans og systir María Kristín, móðir Gunnars Thoroddsen.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Engeyingar eru einstaklega skýrt dæmi um hvernig ættir auðgast af stjórnmálaþátttöku.

Jón var stutt formaður, hætti 1934 og þá tók við Ólafur Thors, þegar Thorsættin var á hápunkti auðs síns og valda. Thorsararnir voru umsvifamiklir í viðskiptum, valdamiklir í stjórnmálum og fyrirferðamiklir í stjórnsýslunni. Það má segja að hin vanhelgu tengsl viðskipta og stjórnmála hafi náð nýjum hæðum í valdatíð þeirra og það hafi orðið öðrum ættum fyrirmynd; markað leiðin að auðsöfnun í gegnum stjórnmálaafskipti.

Bjarni Benediktsson tók við formennskunni af Ólafi Thors árið 1961 og var formaður til dauðadags 1970. Faðir Bjarna var Benedikts Sveinsson þingmaður og bræður hans m.a. Pétur, bankastjóri, þingmaður og sendiherra, og Sveinn forstjóri Síldarverksmiðja ríkisins. Engeyingar eru einstaklega skýrt dæmi um hvernig ættir auðgast af stjórnmálaþátttöku. Fyrstu kynslóðirnar voru fyrst og fremst í stjórnmálum og rekstri ríkisfyrirtækja en í krafti þeirra valda færði ættin til sín auð, náði undir sig fyrirtækjum og varð vellauðug.

Þegar Bjarni féll frá tók Jóhann Hafstein við. Hann var ekki eins vel ættaður og forverar hans tveir, var meira að segja ekki Hafstein heldur Havsteen en tók upp Hafstein-nafnið þar sem kona hans, Ragnheiður var ekki bara Thors og afabarn Thors Jensen, Ólafur Thors var föðurbróðir hennar, heldur var mamma hennar dóttir Hannesar Hafstein. Það er ekki hægt að vera betur ættuð upp á borgarlegan mælikvarða síðustu aldar en að eiga Thor Jensen og Hannes Hafstein sem afa. Jóhann tengist inn í ættarveldi Sjálfstæðisflokksins því í gegnum konu sína, þótt faðir hans hafi verið sýslumaður norður í landi og móðir hans dóttir alþingismanns, reyndar afadóttir þingmanns einnig.

Formannstíð Jóhanns var stutt og Geir Hallgrímsson tók við. Geir var stjórnmálaarmur HBen-ættarinnar, sem var umsvifamikil í viðskiptum, heildsölu, olíuinnflutningi og iðnaði og átti m.a. góðan part af Morgunblaðinu.

Á eftir Þorsteini kom Davíðs Oddsson, sonur einstæðrar móður.

Eftir hraklega útkomu úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir kosningarnar 1983 hætti Geir og fyrsti af þremur formönnum Eimreiðarhópsins tók við. Þorsteinn Pálsson var sonur skrifstofumanns frá Selfossi og þótt kona Þorsteins hafi verið dóttir alþingismanns, þá var sá ekki einn af stólpum viðskipta- og stjórnmálaveldis flokksins. Á eftir Þorsteini kom Davíðs Oddsson, sonur einstæðrar móður. Þótt faðir Davíðs hafi verið af Briem-ætt og Davíð giftur konu sem var Thorarensen og að fjölskylda hennar hafi átt Hans Petersen (umboð fyrir Kodak) þá var Davíð ekki tengdur inn í helstu valdaættir Sjálfstæðisflokksins. Og enn síður Geir H. Haarde, sem var hálf norskur og af alþýðufólki kominn og mægðist ekki inn í neinar ættir sem í hávegum voru hafðar í Valhöll.

Þannig er ættarsaga Sjálfstæðisflokksins. Fyrst kemur tímabil þar sem rótgrónar valda- og auðættir velja sína formenn, í 54 ár frá 1929-1983. Þá kemur að formönnum Eimreiðarhópsins sem eru lítið eða ekkert tengdir þessum ættum. Þeir eru formenn frá 1983-2009, í 26 ár.

Og þá hrynur Ísland undan stefnu flokksins og flokkurinn með. Og valdamesta ætt flokksins, Engeyingar, komu þá sínum manni að, Bjarna Benediktssyni yngri. Auður og völd Thorsaranna voru að mestu horfin þegar þarna kemur við sögu, það er helst að Björgólfur Thor Björgólfsson haldi nafni þeirrar ættar á lofti, en fyrst og fremst í útlöndum. Og H.Ben-ættin tapaði líka miklu í Hruninu, missti Moggann og mest af auð hennar tapaðist í ævintýrum Kristins Björnssonar með Þórði Má Jóhannessyni og fleirum fyrir Hrun, stórkarlalegum bóluveðmálum.

…kannski sonurinn sem vildi leggja hendur á Má Guðmundsson?

Það er kannski vegna falls gamalla ætta að enginn ógnar í raun Bjarna formanni Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir afleitt gengi flokksins í kosningum. Bjarna hefur tekist að halda flokknum í ríkisstjórnum og tryggt honum þar með óbreytt völd, en það byggir á auðsveipni forystu annarra flokka fremur en árangri í kosningum. Og í þessu ástandi eru félagar í flokknum farnir að sætta sig við breytta stöðu, að flokkurinn verði aldrei jafn stór og fyrrum, svo framarlega sem völdin eru óbreytt.

Það er ólíklegt að nokkur utan öflugra ætta muni ógna Bjarna. Ættirnar héldu flokknum þar til vel skipulagður byltingarflokkur Eimreiðarhópsins náði að fella þær á einskonar töfraaugnabliki, þegar Albert Guðmundsson felldi Geir Hallgrímsson í prófkjöri. Þótt einhver ættlítill Sjálfstæðisflokksmaður eða -kona geti orðið heppin með svona augnablik þá myndi það fólk skorta hulduher á borð við Eimreiðarhópinn eða þann sem Albert stýrði. Líklegustu eftirmenn Bjarna eru því einhverjir laukar Engeyjarættarinnar. Eða kannski annað af börnum Þorsteins Má í Samherja, kannski sonurinn sem vildi leggja hendur á Má Guðmundsson?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: