Sigurjón Magnús Egilsson:
Nær er að skipta út þeim sem fara með völdin. Þeim sem hafa keyrt áfram með þeim afleiðingum sem við okkur blasa. Þeim sem sögðu, þegar hentaði, að hér væri búið að finna upp lágvaxtakerfi.
„Við svo búið eru kjaraskerðingar óumflýjanlegar; þær eru þegar hafnar. Valið snýst um að leggja þær tímabundið á sig til þess að ná tökum á verðbólgu og auka kaupmáttinn aftur eða að láta kaupmáttinn brenna upp á verðbólgubáli stjórnlaust án fyrirsjáanlegs enda.
Það er þess vegna sem allir verða að leggjast á árar með Seðlabankanum við að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Líkt og í þjóðarsáttinni má enginn skerast úr leik.“
Svona endar seðlabankastjórinn fyrrverandi leiðarann sinn í dag. Sá gengur í takt við Ásgeir Jónsson og Bjarna Benediktsson, efnahagsráðherra þjóðarinnar.
Verður næsta skref að launafólk skili til baka þeim launahækkunum sem þó hefur tekist að ná, og fá. Alltaf er þetta sami söngurinn. Skuldinni er skellt á launafólk. Enn og aftur. Aftur og enn.
Við segjum nei takk. Nær er að skipta út þeim sem fara með völdin. Þeim sem hafa keyrt áfram með þeim afleiðingum sem við okkur blasa. Þeim sem sögðu, þegar hentaði, að hér væri búið að finna upp lágvaxtakerfi.
Augnabliki síðar erum við flatreka í fjöru okurs og vangetu ráðafólks. Fólk verður að bregðast við og berja þennan ósóma af sér. Skila skuldaskömminni til vanhæfs stjórnmálafólks og embættismanna. Sem fyrst.
Skýr merki eru um að Bjarni Benediktsson sé á útleið. Vangeta hans og áhugaleysi er áberandi. Við það kveiknar smátíra um betri hag. Þjóðin á eftir að vinda ofan af skafli vandamála sem hefur safnast saman á liðnum árum.