Eigum nóg af votlendi
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir áherslu á endurheimt votlendis vera á kostnað skógræktar.
„Getur verið að við séum komin út í mýri í loftslagsmálum og séum að festast þar? Ég hef miklar efasemdir um þá ofur áherslu sem lögð hefur verið á „endurheimt votlendis“, á kostnað skógræktar og annarrar landgræðslu, að undanförnu.“
Þetta skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Facebook.
„Stjórnmálamenn stukku á málið vegna þess að það virtist vera auðveld leið til að koma með stórt nýtt útspil í loftslagsmálum. Ég viðurkenni að við í Framsókn erum ekki saklaus af því.
Þetta gerðist án þess að fyrir lægju nægar rannsóknir og gögn.
Fyrir vikið hafa menn vanrækt skógrækt og aðra landgræðslu. Aðgerðir sem eru mjög mikilvægar, gagnlegar og aðkallandi, jafnvel efnahagslega arðbærar.
Það er líka miklu umhverfisvænna að að nýta íslensk tún til ræktunar og matvælaframleiðslu en að breyta þeim í mýrar og stunda frekar landbúnað á suðlægari slóðum þar sem þarf stöðugt að vökva akrana.
Ef það er eitthvað sem nóg er til af á Íslandi er það votlendi. Við þurfum hins vegar miklu meira af öðru grónu landi, kjarrlendi og skógum þar sem við á. Vonandi geta stjórnmálamenn náð saman um það landgræðslu- og skógræktarátak sem lengi hefur verið á dagskrá.“