„Þetta er auðvitað óundirbúin fyrirspurn til mín en mig langar að vita hvort háttvirtur þingmaður viti að öll ríki Evrópusambandsins séu með okkur í liði um að við séum ekki sett á þennan lista,“ sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir á Alþingi.
Hún og Hanna Katrín Friðriksson tók lítið eitt á hvaða ríki valda því að Ísland verði hugsanlega sett á gráa listann. Lista sem geymir ríki sem ekki taka peningaþvætti nægilega alvarlega. Alþingi afgreiddi frumvörp til að verjast því að svo verði.
„Í síðustu viku afgreiddi þingið hér á handahlaupum og á óásættanlegum hraða tvö mál sem stjórnvöld vildu keyra í gegn. Þeim hafði þá nýlega borist til eyrna að yrðu þau ekki afgreidd væri hætta á að Ísland lenti á svokölluðum gráum lista alþjóðaframkvæmdahópsins FATF vegna þess að við fullnægðum ekki nauðsynlegum skilyrðum varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Gott og vel. Þingið studdi við þessar aðgerðir þrátt fyrir athugasemdir um aðdragandann og framkvæmdina og slugs stjórnvalda,“ sagði Hanna Katrín.
„Ekki hef ég upplýsingar um að hægt sé að halda því fram að öll ríki Evrópusambandsins séu á móti því að við lendum á þeim lista. Auðvitað getur maður haft skoðun á því, ef við lendum á listanum. Hverjir trúa því að við eigum margt sameiginlegt með þeim löndum sem eru á listanum? Hvað er hægt að lesa í það að þessi lönd taki þá ákvörðun að setja Ísland á lista með þeim ríkjum sem þar eru? Fyrir utan almenna innviði sem við höfum í þessu landi höfum við farið í aðgerðir frá því að þessi áfellisdómur kom með 51 ágalla og við lítum svo á að við höfum bætt úr þeim öllum og ég ætla að hafa þá skoðun að við eigum ekkert heima á þessum gráa lista. Auðvitað er það ekki ákvörðun sem við tökum og við munum þá sitja uppi með hana, reynum að greina hvaða áhrif það kann að hafa og gerum það sem við getum til að koma okkur af þeim lista eins fljótt og auðið er,“ sagði Þórdís Kolbrún.