„Þau tíðindi hafa borist að fyrirtækið Vísir í Grindavík ætlar að loka fyrirtæki sínu á þremur útgerðarstöðum á landinu, á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi. Það eru 50 manna vinnustaðir á hverjum stað og mér þykja þetta dapurleg tíðindi hjá þessu fyrirtæki sem fengið hefur meðgjöf í formi byggðakvóta á þessum stöðum í gegnum árin. Það hefur aflaheimildir frá Breiðdalsvík og Djúpavogi, heimildir sem voru á þessum stöðum. Þetta fyrirtæki ber mikla samfélagslega ábyrgð,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi á Alþingi í gær.
Páll Pétursson, forstjóri Vísis, sagði í fjölmiðlum í gær að samfélags ábyrgð felist ekki í að reka óarðbæran einingar.
Lilja er þessu greinilega ekki sammála og sagði að sér finnist mjög óeðlilegt þegar fyrirtæki sem eiga sér slíka sögu taka ekki meiri samfélagsábyrgð en raun ber vitni og segja við starfsfólkið á þessum stöðum: „Við skulum aðstoða ykkur við að flytja búferlaflutningum til Suðurnesja. Líta þessir aðilar í Grindavík á þetta fólk sem hefur byggt upp þessi fyrirtæki sem einhverja þræla í vinnubúðum sem þeir geta tekið með sér á þann stað sem þeir kjósa hverju sinni? Eða er þetta fólk sem á rétt til að stunda vinnu á þeim stöðum sem það býr á, þar sem það hefur byggt upp heimili sín?“
Lilja Rafney talaði einnig um forsendubrest og sagði: „Við tölum um forsendubrest þegar við tölum um leiðréttingu lána. Hver er forsendubrestur þessa fólks sem nú stendur frammi fyrir því að eignir þess eru jafnvel dæmdar verðlausar því að stærsta fyrirtækið á staðnum, eins og á Þingeyri og Djúpavogi, leggur upp laupana? Sem betur fer eru fleiri atvinnumöguleikar á Húsavík og nú eru að verða til fleiri atvinnutæki í kjölfar þess að starfsemin á Bakka er að verða að veruleika á næstu árum, en á stöðum eins og á Þingeyri og Djúpavogi er ástandið ömurlegt. Mér finnst að þessir aðilar eigi að sjá sig um hönd og endurskoða þessa ákvörðun sína.
Átján þúsund og fimm hundruð
Á síðustu fjórum vikum lásu 18.500 Miðjuna.