„Eignaupptaka í boði ríkisins“
„Í boði þessarar ríkisstjórnar heldur áfram fjárhagslegt ofbeldi sem bitið hefur þá verst sem síst skyldi. Verðbólguófétið var vakið upp með látum af ríkisstjórninni og sleppt lausu á sauðsvartan almúgann með hækkandi íbúðalánum sem enn einu sinni eru ekkert annað en eignaupptaka í boði ríkisins,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi, fyrr í dag.
„3,6% hækkun um áramótin horfin í hækkandi 4,3% verðbólgudrauginn og eina ráð þeirra verst settu, öryrkja og eldri borgara, atvinnulausra, er að herða sultarólina enn og aftur. Hvernig reiknar þessi ríkisstjórn út að verst settu hópar þjóðfélagsins séu þeir einu sem ekki þurfa fjárhagsaðstoð í veirufaraldrinum? Er það vegna þess að þeir verst settu, öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir, hafa það svo slæmt nú þegar í boði ríkisstjórnarinnar og því í lagi að þeir hafi það enn verr, því að lengi getur vont versnað og þau finna ekkert fyrir því?“
Guðmundur Ingi talaði áfram: „Þarna eru breiðu bök ríkisstjórnarinnar fundin í miðjum Covid-19 faraldrinum, keðjuverkandi fjárhagslega skertir öryrkjar og eldri borgarar, sem hafa ekki fengið krónu í hækkun umfram 3,6% hækkun um áramótin sem dugar ekki einu sinni fyrir verðbólguhækkuninni. Þá eru einnig fáránlegar og sveltandi skerðingar sem skella á þeim sem detta út af atvinnuleysisbótum. Þeir þurfa að reiða sig á félagsbætur sem skila sér ekki því að þar er keðjuverkandi skerðingarófétið grasserandi og áhyggjur vegna leigu, fæðu og annarra nauðsynja bíta sárt. Þá eru það einnig atvinnulausir sem klárað hafa bótarétt sinn og verða að tóra á ömurlega lágri sveitarframfærslu, þ.e. ef hún er ekki skert króna á móti krónu.“
Hann endaði svo svona:
„Með þessum aðgerðum er fótum keðjuverkandi kippt undan fjölskyldum á ömurlegan og vanvirðandi hátt. Tjaldað til sárafátæktar, svelti fyrir einstaklinga, börn, fjölskyldur þeirra og það með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hvernig getum við hér á Alþingi látið þennan mismununarósóma viðgangast áratug eftir áratug án þess að bregðast við?“