Eignaupptaka af verstu gerð
Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, er duglegur í baráttunni fyrir betra lífi öryrkja og eldri borgara. Hann skrifar fína grein í Moggann í dag. Þar rekur hann ótrúlegar flækjur sem hafa verið lagðar fyrir eldri borgara. Guðmundur byrjar grein sína af krafti:
„Ríkisstjórnin myndi græða á því að leyfa þeim eldri borgurum að vinna sem það vilja og þá án skerðingar á atvinnutekjum þeirra. Gróðinn fyrir ríkið yrði í skatttekjum og betri heilsu þeirra eldri borgara sem vilja eða geta unnið. Það er fáránlegt að skerða vinnulaun og þá einnig lífeyrissjóðslaun frá lífeyrissjóðunum sem eru ekkert annað en laun viðkomandi plús vextir og verðtrygging. Vextina og verðtrygginguna ætti að skatta sem fjármagnstekjur, en ekki launatekjur. Þetta er eignaupptaka af verstu gerð.“
Ómögulegt er að stytta grein Guðmundar þar sem það á eftir kemur eru haldgóðar skýringar á flóknu kerfi:
„Ríkisstjórnin skerðir laun þeirra eldri borgara sem vinna fulla vinnu að fráteknu frítekjumarki upp á 100.000 krónur um 45%, en sama ríkisstjórn hefur nýlega komið á hálfum lífeyrissjóðsgreiðslum frá lífeyrissjóðum og hálfum frá Tryggingastofnun ríkisins og það án allra skerðinga fyrir eldri borgara!
Sá sem er með eina milljón króna frá lífeyrissjóði sínum í ½-á-móti-½-kerfinu fær 124.053 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins. Láglaunamaðurinn sem er bara með 125.000 krónur frá lífeyrissjóðnum sínum fær það sama og sá hálaunaði, eða 124.053 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins.
Sá sem hefur ekki nema 125.000 krónur frá lífeyrissjóði í þessu kerfi, sem er yfirleitt láglaunafólk, fær útborgaðar 233.000 krónur á mánuði, en sá sem er með eina milljón króna frá lífeyrissjóði fær útborgaðar 738.000 krónur á mánuði með 124.000 á mánuði í gjöf frá ríkinu. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?
Þegar sótt er um þennan hálfa rétt fyrir einhvern sem er með minna en 124.052 krónur úr lífeyrissjóði á mánuði segir orðrétt á vef Tryggingastofnunar ríkisins: „Lífeyrissjóðstekjur eru of lágar, þar af leiðandi átt þú ekki rétt á 50% lífeyri og 50% frá lífeyrissjóðunum miðað við þær lífeyristekjur sem þú gefur upp. Lífeyrissjóðstekjurnar þurfa að vera hærri en 124.053 krónur á mánuði svo að þú eigir rétt. En þú getur sótt um almennan ellilífeyri.“
Vegna þess að viðkomandi hefur verið láglaunamaður alla tíð fær hann ekki 124.053 krónur á mánuði frá ríkinu eins og hálaunaði milljón króna maðurinn fær. Þess vegna hefur Flokkur fólksins lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna eldri borgara með stuðningi frá öðrum flokkum. Frumvarp sem mun ekki mismuna eldri borgurum, eins og þessi fáránlegu lög um hálfan lífeyrissjóð á móti hálfum bótum Tryggingastofnunar frá núverandi ríkisstjórn.
Vonandi kemst frumvarp Flokks fólksins út úr velferðarnefnd á næstunni og verður að lögum á þessu þingi, öllum eldri borgurum til góða.“