- Advertisement -

Eiginkona Davíðs Þórs stígur fram: „Mér dettur ekki í hug að grípa til varna fyrir eiginmann minn“

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, eiginkona Davíðs Þórs Jónssonar sóknarprests, segir að sér detti ekki í hug að grípa til varna fyrir eiginmanninn, þó hún geri það nú að vissu leyti í nýrri færslu sinni á Facebook. Þar gerir hún að umtalsefni þá orrahríð sem Davíð Þór hefur lent í eftir gagnrýni hans á fjöldabrottflutning flóttafólks frá Íslandi.

Allt ætlaði um koll að keyra í gær þegar Davíð Þór sagði að það væri sérstakur staður í helvíti fyrir þá sem selt hafa sál sína. Þar átti hann við stjórnarliða VG í ríkisstjórninni, undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, fyrrum ástkonu Davíðs. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, sá í dag tilefni til að veita sóknarprestinum tiltal vegna málsins og orðfæris hans í gær.

Sjá einnig: Davíð Þór um ríkisstjórn Katrínar Jakobs: „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína“

Björn Ingi, ritstjóri Viljans, var brjálaður út í Davíð Þór og kallaði hann „pínulítinn karl“ og „nettröll“. Illugi Jökulsson rithöfundur kom prestinum hins vegar til varnar og bað almenning um að slaka aðeins á.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og nú hefur eiginkonan stigið fram og tjáir sig um allt fjaðrafokið í samfélaginu:

„Nú dettur mér ekki í hug að grípa til varna fyrir eiginmann minn, enda er hann fullfær um að vinna sig út úr sínum málum sjálfur. En sem almennum borgara í landinu finnst mér skelfilegt að VG, sem nú á dögunum reyndi að þyrla ryki í augu fólks og beina sjónum þess frá brottvísanamálinu með því að boða nýja löggjöf um hatursorðræðu, máli sig upp sem fórnarlömb hatursorðræðu í þessari stöðuuppfærslu.

Sjá einnig: Björn Ingi kallar Davíð Þór sóknarprest „pínulítinn kall“: „Presturinn sjálfur! Ömurlegt“

Þetta er í mínum huga gróf misnotkun á hugtakinu hatursorðræða, en um skilgreiningu þess er t.d. hægt að lesa sér til um á vefsíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands, humanrights.is.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að orðið ‘míga’ er ekki til í kurteisisorðabók hinna dannaðri borgara og það má auk þess deila um notkun hugtaksins fasistastjórn. En ef ég væri flutt nauðug viljug til Grikklands í lögreglufylgd og skilin þar eftir í pappakassa á götum úti, þá er sú hugtakanotkun ekkert mjög langt úti á túni. Hver er svo sem munurinn á því að flóttafólki sé veitt slík meðferð eða innfæddum Íslendingi?

Í þriðja lagi er heimsþekkt tilvitnun sem fjölmargir óratorar hafa notað í gegnum í það minnsta áratugi ef ekki árhundruð og ég a.m.k. hélt að flestir læsu sem stílbragð, túlkuð af þorra almennings sem bein hótun um helvítisvist og það sé sérlega óheppilegt af því prestur á í hlut. Ef hann hefði verið bakari og sagt ‘Ríkisstjórnin verður tekin í bakaríið ef hún lætur framkvæma þessar fyrirhuguðu brottvísanir’, hefði það þá verið túlkað sem svo að hann væri að hóta ríkisstjórninni líkamsmeiðingum og brennslu í bakarofnum? Hefði formaður bakarasambandsins áminnt hann fyrir brot á siðareglum?

Sjá einnig: Illugi Jökuls harðorður: „Er fólk gengið af göflunum?“

Að lokum skil ég ekki hvað fjölmiðlar eru að tala um yfirlýsingu, eins og maðurinn sé einhver stofnun. Þetta var stöðuuppfærsla á hans persónulegu facebook síðu, fruntalega orðuð, vissulega, en ekki skrifuð í nafni kirkjunnar og beindist ekki gegn neinum minnihlutahópi heldur fólki í forréttindastöðu og – það sem mestu máli skiptir – til varnar einum viðkvæmasta hópi samfélagsins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: