Borgaryfirvöld gruna eigendur metanbíla um að svindla sér í ókeypis bílastæði sem eru ætluð vistvænum bílum.
En hvers vegna?
„Rök formanns skipulagsráðs voru að ekki væri hægt að tryggja að eigendur metanbíla aki á vistvæna orkugjafanum þegar þeir koma í bæinn og leggja í gjaldskyld stæði. Með þessum orðum er verið að gera lítið úr eigendum metanbíla,“ bókaði Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins.
„Það blasir við að sá sem kaupir sér metanbíl noti einungis bensín sem varaafl,“ segir Kolbrún.
Með reglum sem tóku gildi 1. janúar 2020 voru metanbílar teknir af lista vistvænna bíla og geta ökumenn ekki lagt gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. „Þetta er bagalegt og ekki til þess fallið að hvetja til orkuskipta. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur,“ segir Kolbrún.
„Flokki fólksins finnst mikilvægt að allt sé gert til að flýta orkuskiptum og því fleiri sem sjái hag í að kaupa metanbíl því betra. Offramboð er á metani sem brennt er á báli í stórum stíl á söfnunarstað því Sorpu hefur mistekist að koma því á markað. Metan ætti að gefa eða selja á kostnaðarverði. Allt er betra en að sóa því. Væri metan selt á kostnaðarverði mundi hópur metanbíleigenda stækka hratt. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi orkuskipta. Það voru regin mistök að fjarlægja metanbíla af þessum lista.“
Ekki kemur fram hvað verður gert með eigendur annarra bíla sem ganga fyrir tveimur orkugjöfum.