Samfélag
Seinni hluti leiðara Moggans er sérstakur. Hann er tilvitnun í grein ef eldri borgarann Jóhann L. Helgason. Tilefnið er hrun Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. Skiptum yfir á sprungusvæðið í Hádegismóum:
„Margur hefur áhyggjur af nýmældu gengi Sjálfstæðisflokksins og í öðrum hlakkar, eins og gengur. Jóhann L. Helgason, eldri borgari, dregur upp sína mynd af þróuninni. Hann nefnir, að nýlega hafi stór maður og mikill um sig, mætt í sjónvarp á stuttbuxum og haft sitt að segja. Hafi hann haft „furðulega skýringu á hruni Sjálfstæðisflokksins að undanförnu og gaf í leiðinni uppáskrifaðan lyfseðil“ til að hressa fylgið. Töframáttur lyfsins gekk út á að Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi stefnu Miðflokksins.“
Þarna er hallærislegt skot á klæðnað Ólafs Þ. Harðarsonar. Aftur á sprungusvæðið í Hádegismóum:
„Jóhann taldi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert á því að græða. Nær væri að snúa sér að eigin vandamálum og brýna sverðin. Að mati Jóhanns séu þau „að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst fólkið í landinu með margvíslegum hætti“. Bráðnauðsynlegt sé „að byrja á því að tala við þjóð sína á því tungumáli sem hún skilur, og ekki síður að hlusta á rödd hennar, en hún hafi lengi hrópað eftir lagfæringum á eftirfarandi málum“. Húsnæðismál búi við afleita stöðu og hömlulausar verðhækkanir. Unga fólkið sé úti í kuldanum og geti hvorki keypt né leigt. Íbúðalánakerfið sé ónothæft og hafi verið lengi, enda ólíkt því sem nágrannalöndin noti. Segir Jóhann að hér borgi fólk margfalt hærri vexti og afborganir en annars staðar. Og hann bendir á að „virkjunarframkvæmdir hafi nokkuð lengi verið í frosti og þar með valdið þjóðinni búsifjum. Næstum óheft flæði hælisleitenda inn í landið, langt umfram það sem tíðkast erlendis. Hin dýra matarkarfa sé að sliga heimilin svo margt eldra fólk flýr Ísland.“
Þarna telur Jóhann upp mörg sár mál, mál sem margt fólk er að bugast undan. Meiri mannsbragur hefði verið á því að ritstjórinn sýndi kjark og segði þetta sjálfur frekar en að vitna enn og aftur í téðan Jóhann.
Leiðaranum lýkur á þessari tilvitnun í skrif eldri borgarans Jóhanns:
„Mitt ráð til Sjálfstæðisflokksins er að byrja að hlusta á lág- og millistéttina, það er hópurinn sem er og hefur verið að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn.“
Nú er til of mikils mælst. Á flokksfólkið á fyrsta bekk að fara að hlusta á verkafólk? Fólk sem býr í blokkum? Er ritstjórinn að taka undir þetta með því að birta þetta í leiðaranum? Nei, takk. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er einkum í Borgartúni í Reykjavík.