- Advertisement -

Eiga þau að taka niður fyrir sig?

„Mitt ráð til Sjálf­stæðis­flokks­ins er að byrja að hlusta á lág- og millistétt­ina, það er hóp­ur­inn sem er og hef­ur verið að yf­ir­gefa Sjálf­stæðis­flokk­inn.“

Jó­hann L. Helga­son.

Samfélag Seinni hluti leiðara Moggans er sérstakur. Hann er tilvitnun í grein ef eldri borgarann Jó­hann L. Helga­son. Tilefnið er hrun Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. Skiptum yfir á sprungusvæðið í Hádegismóum:

„Marg­ur hef­ur áhyggj­ur af ný­mældu gengi Sjálf­stæðis­flokks­ins og í öðrum hlakk­ar, eins og geng­ur. Jó­hann L. Helga­son, eldri borg­ari, dreg­ur upp sína mynd af þró­un­inni. Hann nefn­ir, að ný­lega hafi stór maður og mik­ill um sig, mætt í sjón­varp á stutt­bux­um og haft sitt að segja. Hafi hann haft „furðulega skýr­ingu á hruni Sjálf­stæðis­flokks­ins að und­an­förnu og gaf í leiðinni upp­áskrifaðan lyf­seðil“ til að hressa fylgið. Töframátt­ur lyfs­ins gekk út á að Sjálfstæðisflokkurinn inn­leiddi stefnu Miðflokks­ins.“

Þarna er hallærislegt skot á klæðnað Ólafs Þ. Harðarsonar. Aftur á sprungusvæðið í Hádegismóum:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Nú er orðað að Bjarni eigi að teygja sig eftir stefnu Miðflokks Sigmundar Davíðs.

„Jó­hann taldi að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hefði ekk­ert á því að græða. Nær væri að snúa sér að eig­in vanda­mál­um og brýna sverðin. Að mati Jó­hanns séu þau „að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur fjar­lægst fólkið í land­inu með marg­vís­leg­um hætti“. Bráðnauðsyn­legt sé „að byrja á því að tala við þjóð sína á því tungu­máli sem hún skil­ur, og ekki síður að hlusta á rödd henn­ar, en hún hafi lengi hrópað eft­ir lag­fær­ing­um á eft­ir­far­andi mál­um“. Hús­næðismál búi við af­leita stöðu og hömlu­laus­ar verðhækk­an­ir. Unga fólkið sé úti í kuld­an­um og geti hvorki keypt né leigt. Íbúðalána­kerfið sé ónot­hæft og hafi verið lengi, enda ólíkt því sem ná­granna­lönd­in noti. Seg­ir Jó­hann að hér borgi fólk marg­falt hærri vexti og af­borg­an­ir en ann­ars staðar. Og hann bend­ir á að „virkj­un­ar­fram­kvæmd­ir hafi nokkuð lengi verið í frosti og þar með valdið þjóðinni búsifj­um. Næst­um óheft flæði hæl­is­leit­enda inn í landið, langt um­fram það sem tíðkast er­lend­is. Hin dýra mat­arkarfa sé að sliga heim­il­in svo margt eldra fólk flýr Ísland.“

Þarna telur Jóhann upp mörg sár mál, mál sem margt fólk er að  bugast  undan. Meiri mannsbragur hefði verið á því að ritstjórinn sýndi kjark og segði þetta sjálfur frekar en að vitna enn og aftur í téðan Jóhann.

Leiðaranum lýkur á þessari tilvitnun í skrif eldri borgarans Jóhanns:

„Mitt ráð til Sjálf­stæðis­flokks­ins er að byrja að hlusta á lág- og millistétt­ina, það er hóp­ur­inn sem er og hef­ur verið að yf­ir­gefa Sjálf­stæðis­flokk­inn.“

Nú er til of mikils mælst. Á flokksfólkið á fyrsta bekk að fara að hlusta á verkafólk?  Fólk sem býr í blokkum? Er ritstjórinn að taka undir þetta með því að birta þetta í leiðaranum? Nei, takk. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er einkum í Borgartúni í Reykjavík.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: