Eiga lífeyrisþegar að bera skaðann af kosningaloforðum stjórnmálaflokka?
„Samkvæmt síðustu birtu reikningsskilum ÍL-sjóðs er eigið fé sjóðsins neikvætt um 197 milljarða. Þar kemur einnig fram að ríkissjóður er stór lántaki hjá ÍL-sjóði. Lán ríkissjóðs nemur 197 milljörðum. Lánið ber 0,87% verðtryggða vexti. Þannig að ekki bætir sú lánveiting stöðu sjóðsins,“ skrifar Vilhjálmur Bjarnason fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Mogga dagsins.
„Er það eðlilegt að lífeyrisþegar í landinu beri þann skaða sem kosningaloforð stjórnmálaflokka hafa í för með sér? Sér í lagi þegar loforðin hafa ekki fengið þinglega meðferð? Það er dálítið ódýr lausn. Það að lántaki breyti lánskjörum sér í vil á langtímasamningi eru ekki eðlilegir viðskiptahættir. Sérstaklega þegar lánveitandi á að vera í góðri trú, án þess að undirferli sé að baki. „Bona fide.“
Þessi vonda staða kom skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birtist árið 2013. Málið var kæft í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis af formanni nefndarinnar og aðrir nefndarmenn höfðu engan áhuga á málinu. Í fylgiskjölum með skýrslunni kemur fram afneitun fyrrerandi forstjóra sjóðsins um þessa stöðu. Þar var aðeins eitt boðorð; að neita staðreyndum þegar þær komu sér illa,“ skrifar Vilhjálmur.
„Það er allra verst að lýðsleikjur skuli komast upp með skrum og loforð út yfir alla skynsemi og nái kosningu. Það að þeim sem vara við skuli útskúfað og þurfa að greiða að lokum er út úr öllu réttlæti.
Þegar stjórnarherrar stjórna illa er eðlilegt að kjósendur borgi. Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn. Fólk er of saklaust.“
Grein Vilhjálms er nokkuð lengri.