„Vissulega eru lífeyrissjóðirnir stærsti hluti kröfuhafa eða eiganda skuldabréfa, eða hvað við kjósum að kalla það, en þetta er eigi að síður fjölbreyttur hópur þar sem við erum með fleiri aðila í þeim hópi. Ég held að ef við höldum vel á málum og gefum okkur tíma til ígrundunar þá geti hagsmunir skattgreiðenda og lífeyrisþega farið saman við lausn málsins. Með því einmitt að haga þessu uppgjöri tímanlega þýðir það ekki sjálfkrafa tap lífeyrissjóðanna heldur hafa þeir tækifæri til þess að ná fram viðunandi ávöxtun á þá fjármuni sem þarna um ræðir. Þetta eru nú helstu sérfræðingar okkar í því að ávaxta eignir sínar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir þegar Logi Einarsson spurði hana vegna ÍL-sjóðs og þá leið sem Bjarni Benediktsson vill fara til að sleppa frá að standa við ríkisábyrgðina.
Logi spurði: „Finnst hæstvirtum forsætisráðherra það sanngjarnt að ellilífeyrisþegar þurfi að borga fyrir ævintýri óreiðustjórnmálamanna?
„Eiga ellilífeyrisþegar að borga brúsann? Ég fór yfir það hér áðan, í fyrra svari, að ég tel alla vega að við getum gert okkur væntingar um að náist samkomulag um uppgjör þá hafi lífeyrissjóðirnir, sem eru hluti af þessum eigendum, færi á því að ávaxta sitt fé þannig að til þess þurfi ekki að koma að þetta bitni á ellilífeyrisþegum,“ sagði Katrín.
Já, það er það. Þetta svar er hið minnsta stórmerkilegt. Það er alkunna að það minnkar sem tekið er af. Líka peningar lífeyrissjóða.
-sme