Og mörg dæmi eru um, að þeir eigi ekki fyrir mat í lok mánaðar.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Það er stöðugt verið að brjóta mannréttindi á öldruðum og öryrkjum. Og það er verið að brjóta stjórnarskrá og lög á þessum hópum. Stjórnvöld skammta lægsta lífeyri til aldraðra og öryrkja svo naumt, að þeir hafa ekki efni á að leysa út lyf sín og þeir hafa ekki efni á að fara til sérfræðilæknis.
Og mörg dæmi eru um, að þeir eigi ekki fyrir mat í lok mánaðar. Þetta eru gróf mannréttindabrot. Með þessu háttalagi brjóta stjórnvöld stjórnarskrána á öldruðum og öryrkjum, þar eð það stendur skýrum stöfum í 76. grein stjórnarskrárinnar að veita eigi öldruðum og öryrkjum aðstoð ef þarf.
Og vissulega þarf aðstoð þegar lægsti lífeyrir dugar hvorki fyrir mat né lyfjum eða sérfræðilæknum. Það er svo önnur saga og ljót, að ráðamenn, sem koma svona fram við lægst launuðu eldri borgara og öryrkja eru að dæma þessa hópa út úr samfélaginu; þeir geta ekki rekið tölvu, þeir geta ekki rekið bíl, ekki farið á tónleika eða í leikhús; í stuttu máli sagt: Þeir eru dæmdir út úr samfélaginu.
Og á meðan slíkt ástand ríkir í þjóðfélagi, sem hefur nóg af peningum láta stjórnvöld málin veltast í starfshópum, sem gera ekki annað en tefja málin, þegar allar staðreyndir liggja fyrir í ráðuneytum, Tryggingastofnun og í hagsmunafélögum eldri borgara.
Hvað er unnt að líða það lengi, að stjórnvöld brjóti mannréttindi, lög og stjórnarskrá á lægst launuðu öldruðum og öryrkjum? Eiga stjórnvöld, sem haga sér svona eitthvað erindi í alþjóðlegar mannréttindanefndir? Er ekki tímabært að láta alþjóðlegar mannréttindanefndir vita af því hvernig íslensk stjórnvöld haga sér hér?
Fyrirsögnin er Miðjunnar.