ÉG VIL ORKUPAKKA NÚLL
Gunnar Smári skrifar: Orkukerfin á Íslandi byggðust upp af opinberum fyrirtækjum; svo sem Hitaveitunni og Rafmagnsveitunni í Reykjavík, Orkubúi Vestfjarða, Hitaveitu Akureyrar og Rafmagnsveitum ríkisins. Á uppbyggingatímanum voru þetta samfélagsleg fyrirtæki, byggð upp af skattfé og lánshæfi almennings og rekin til að skaffa almenningi eins ódýra og örugga orku og mögulegt var. Til lengri tíma var businessmódelið að greiða niður stofnkostnað með notkunargjöldum, eftir uppbyggingartíma átti orkuverð því hægt og bítandi lækka. Almenningur naut þess að eiga orkufyrirtækin sjálfur og var því ekki að svína á sér með óþarflega háum orkureikningum.
Þetta breyttist með Landsvirkjun, að hluta. Landsvirkjun er stórfyrirtæki smíðað til að skaffa stórfyrirtækjum ódýra og örugga orku. Lánshæfi almennings (og þróunarstyrkir frá alþjóða stofnunum) var notað til að byggja stórar virkjanir sem seldu ódýra orku til alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem aftur réðu góðan fjölda fólks til vinnu. Landsvirkjun var byggð upp til að nota orku til að eyða atvinnuleysi. Framan af þótti álverið í Straumsvík til dæmis fyrst og fremst góður vinnustaður; örugg vinna og ágætis kaup fyrir karla.
Með nýfrjálshyggjunni upp úr 1980 er hætt að horfa til félagslegra gilda atvinnureksturs. Opinberu fyrirtækjunum er breytt svo þau fara að hegða sér eins og einkafyrirtæki. Í stað þess að nota niðurgreiðslu á stofnkostnaði til að lækka verð er svigrúmið notað til að taka ný lán til nýrra framkvæmda og leitað er að nýjum kaupendum að orkunni. Hitaveita Reykjavíkur borar ekki eftir heitu vatni til að leiða í hús til upphitunar heldur til að virkja svo hægt sé að selja álveri eða silicon-verksmiðju upp í Hvalfirði rafmagn. Hið félagslega fyrirtæki verður að fjárfestingarfyrirtæki sem fyrst og fremst skiptir við alþjóðlega auðhringi. Og þegar þeir missa áhugann allskonar ævintýramenn og fjárspámenn, sem reyna að fá hlutafé og lánsfé frá lífeyrissjóðum landsmanna og orku úr auðlindum landsmanna í gegnum fyrirtæki landsmanna til að geta sjálfir auðgast sem mest.
Þegar búið er að breyta hinum félagslegu fyrirtækjum svo þau hugsa og starfa eins og kapítalísk fyrirtæki, eru sum þeirra seld. Rökin eru að það breyti engu fyrir íbúanna. Ef sameiginlegt fyrirtæki okkar kemur fram við okkur eins og væri það kapítalískur gróðapungur; hverju skiptir það þótt einhver annar eigi það en við? Til dæmis huldumaður frá Kanada eða kínverskur óligarki? Og fólkið fellst á Kanadamanninn en mun líklega hafna Kínverjanum.
Þegar fjárfestingarævintýri hinna opinberu fyrirtækja kaffærðu þau í skuldum voru gjöld á almenning hækkuð til að bjarga fyrirtækjunum frá gjaldþroti. Það stjórnmálafólk sem var við völd þegar það gekk yfir stærði sig af að hafa bjargað fyrirtækjunum. Með því að láta almenning borga þau út úr skuldunum.
Til að ýta fyrirtækjunum enn lengra frá samfélagslegu hlutverki sínu, var innleidd orkustefna Evrópusambandsins, sem gengur út á að markaðsvæða orkuframleiðslu, -sölu og -dreifingu. Settar voru kvaðir á gömlu orkufyrirtækin, sem almenningur byggði upp á síðustu öld, um að þau skiptu sér upp í ólík fyrirtæki. Evrópusambandið þolir ekki stofnanir almennings, hefur enga trú á því fyrirbrigði; heldur vill aðeins kapítalísk fyrirtæki á markaði. Og jafnvel þótt að á Íslandi búi svo fátt fólk að hér hafi ekki myndast heilbrigður markaður um nokkurn skapaðan hlut, í besta falli verslun með notaða bíla. Allir aðrir markaðir á Íslandi er einokunar- eða fákeppnismarkaðir þar sem fyrirtækin bindast samtökum um að mergsjúga almenning. Með sérstakri blessun stjórnvalda, sem ætíð taka stöðu með hinum sterka gegn hinum veika, með hinum ríka gegn hinum fátækari, með hinum fáu gegn fjöldanum.
Áhrif orkustefnu Evrópusambandsins var taumlaus sóun á fjármunum og fókus við að kljúfa gömlu orkufyrirtækin upp í smærri fyrirtæki, sem almenningur hefur ekki einu sinni nennt að leggja á minnið hvað heita. Míla? Orka náttúrunnar? Orkusalan? Veitur? Þessi fyrirtæki ráða sér forstjóra og markaðsstjóra til að byggja upp ímynd, reyna að sanna tilgang sinn og fá almenning til að skilja mikilvægi sitt. Sem þrátt fyrir endalausar sjónvarpsauglýsingar hefur ekki gengið. Almenningur þarf ekki þrjú ólík fyrirtæki til að kveikja ljósin heima hjá sér. Hann var sáttur með gamla fyrirkomulagið; þegar almenningur tók höndum saman við að sækja orku í fallvötn og heitt vatn í borholur og réð svo fólk til að framkvæma þetta og reka. Almenningur þarf engan sýndarmarkað, hann þarf bara ódýra og örugga orku. Og besta leiðin til að skaffa slíkt er að byggja upp traust almannafyrirtæki, í almannaeigu og sem hafa það sem sitt eina hlutverk að þjóna almenningi. Ekki stunda áhættufjárfestingar, ekki þykjast vera fyrirtæki á samkeppnismarkaði, ekki snúa markmiðum fyrirtækisins frá því að skaffa ódýra og örugga þjónustu yfir í að skila eigendum sínum sem mestum arði.
Evrópusambandið og forysta Sjálfstæðisflokksins eru sammála um breytta orkustefnu, vegna þess að markmið þeirra er það sama: Einkavæðing orkugeirans. Fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar er að breyta stofnunum almennings svo þær hegði sér alveg eins og einkafyrirtæki. Næsta skrefið er breyta stefnu fyrirtækjanna í þeim anda, skuldsetja þau og auka áhættu í rekstri. Þá er eytt allri hagræðingu af sameiginlegum rekstri, þröngvað inn óhagræðingu til að þjóna sýndar-samkeppni. Þá er lagt til að ávinningur almennings, sem er skilgreindur aðeins sem arður eigandans, sé settur í sérstakan sjóð, til að fjarlægja hann rekstrinum. Þegar þarna verður komið verður lagt til að þessi fyrirtæki almennings verði seld til að minnka áhættu almennings vegna áhætturekstrarins. Sem enginn bað um.
Þriðji orkupakkinn er aðeins lítið skref á þessari leið. Hugmynd Bjarna Benediktsson um sjóð fyrir arð af orkufyrirtækjum er annað skref. Uppbrot gömlu orkufyrirtækjanna voru fyrri skref, yfirgengilegar áhættufjárfestingar Orkuveitunnar einnig, ráðagerðir um útrás hennar, sala á hlut almennings í HS Orku og svo framvegis. Við erum á hraðleið til einkavæðingar orkugeirans. Og þriðji orkupakkinn er liður í því eins fyrri tilskipanir Evrópusambandsins.
Það er athygli vert að Samfylkingin og stuðningsmenn hennar hafa sömu afstöðu til þriðja orkupakkans og Evrópusambandsins og aðrir alþjóðasinnaðir nýfrjálshyggjuflokkar, þar með talin Viðreisn. Svo virðist sem Samfylkingin hafi algjörlega gengist inn á kenningu Margraet Thatcher um að það væri engin valkostur við kapítalismann; að félagslegur rekstur leiddi ætíð til lakari niðurstöðu en einkarekstur drifin áfram af kröfu um arð til eiganda fyrirtækjanna. Samfylkingin, sem líka heitir Jafnaðarmannaflokkur Íslands, hefur því lagt niður eftirstríðsárakröfu sósíaldemókrata á Norðurlöndunum um blandað hagkerfi og tekið upp pólitík Blairista, um að kapítalistunum skuli falinn allur rekstur, einnig sá sem áður tilheyrði samfélaginu og félagslegum rekstri (menntun, heilbrigðiskerfi, orkuöflun og –dreifing, innviðauppbygging o.s.frv.) og að krafan skuli vera um samkeppniseftirlit til að tryggja að kapítalisminn færði almenningi allar þær gjafir sem honum á að vera eðlislægt. Að baki þessari kröfu liggur trúin á að þróaður kapítalismi á borð við þann sem Evrópusambandið styður, þar sem virk samkeppni um fjármagn, vöru, þjónustu og vinnuafl þvert yfir landamæri er ætíð sett ofar rétti almennings til að reka sína hitaveitu í friði, kjósi hann það. Meginreglur samfélagsins skuli þjóna og byggja upp kapítalískan rekstur, nánast banna félagslegan rekstur, flytja sem flestar ákvarðanir frá hinu pólitíska sviði og draga sem mest úr getu samtaka almennings til að hafa áhrif á samfélagsuppbygginguna, til dæmis með skilyrtum réttindum verkalýðsfélaga.
Þar sem þeir flokkar, sem rætur eiga í starfsemi verkalýðsfélaganna á síðustu öld, hafa misst trú á félagslegum rekstri eru í raun allir þingflokkar á Alþingi sammála um að kapítalisminn skuli ríkja yfir öllum rekstri. Flokkarnir skiptast síðan í tvennt þegar kemur að því hvaða regluverk skuli setja hinum kapítalíska rekstri. Viðreisn, Samfylkingin og minnihlutar af Sjálfstæðisflokki, Framsókn og VG vilja gera það með því að innleiða reglur kapítalískra alþjóðasamtaka. En Miðflokkur, Flokkur fólksins, meirihlutar af Sjálfstæðisflokki, Framsókn og VG vilja halda völdunum yfir mótun samfélagsins hjá innlendri valdastétt og peningavaldi.
Víddin í pólitík næstu ára mun hins vegar ekki snúast um þetta; hvort hið þjóðlega eða alþjóðlega auðvald eigi að stjórna samfélaginu. Baráttan mun verða milli stétta, um hvort að fjöldinn eigi að ráða eða áfram hin fáu ríku og valdamiklu. Og þegar fjöldinn hefur sigrað mun hann endurbyggja veitustofnanir í samfélagslegri eigu og sem fyrst og fremst gegna samfélagslegu hlutverki. Þetta mun ekki aðeins eiga við um orkuveitur og hitaveitur, heldur einnig um banka og peningaveitur, um heilbrigðis- og menntakerfið, um vegakerfið og uppbyggingu innviða og um fleiri veigamikla þætti sem nýfrjálshyggjan færði kapítalistunum á undanförnum áratugum.
Krafan ætti því að vera að taka upp orkupakka núll, þann sem byggði uppöflug almannafélög sem færðu landsmönnum rafmagn og hita á síðustu öld. Við eigum að krefjast þess að fá þann pakka aftur, orkufyrirtæki sem þjóna samfélaginu en leiðast ekki út í áhætturekstur og sívaxandi okur á almenningi.