- Advertisement -

Ég vil frekar krónu en evru eða dollar

Á meðan kjörnir fulltrúar, þingmenn og ráðherrar, taka þátt í sjálftökunni mun ekkert breytast.

Ragnar Önundarson skrifar:

Margir vilja skipta krónunni út og taka upp stærri og stöðugri gjaldmiðil, sem mundi aga og siða þjóðina til í efnahagsmálum. Hún yrði þá að haga sér með hliðsjón af því að gjaldmiðillinn hvorki veikist né styrkist eftir aðstæðum og hegðun okkar.

Við vitum að gengisfelling, verðbólgu-gusa í kjölfarið og verðtrygging eru aðferð til m.a. að taka svonefndar „óraunhæfar launahækkanir“ almennings til baka.  Líka til að mæta aflabresti, verðfalli og hugsanlegu áfalli í ferðaþjónustu. Sjálftökufólkið heldur alltaf sínu, því laun og kaupaukar þess hækka eftir því sem hugur þeirra girnist, en laun almennings, ellilífeyrir og örorkubætur sitja eftir. 

Kaupmáttur vex. 

Kaupmáttur rýrnar gjarnan um ca. 15% þegar svona „snúningur“ er tekinn á þjóðinni.  Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess ósamkomulags sem ríkir um tekjuskiptinguna, við skiptum öðru hvoru á milli okkar tekjum umfram það sem til skiptanna er, eftir að sjálftökufólkið hefur fengið fylli sína.  Þetta væri ekki mögulegt með evru eða dollar og sjá margir það sem mikinn kost. „Snúningurinn“ dreifir samt högginu. Allir nema sjálftökufólkið missa kaupmátt, líka öryrkjar og aldraðir, sem engar óraunhæfar launahækkanir höfðu fengið.

Þegar vel gengur styrkist gengi krónunnar aftur á móti. Kaupmáttur alls almennings vex.  Ekki bara launamanna, heldur líka öryrkja og aldraðra. Sterkari króna heldur aftur af verðbólgu og þar með skuldum heimilanna. 

Þegar vel gengur í útflutningsgreinum, s.s. sjávarútvegi og ferðaþjónustu, streyma gjaldeyristekjur til landsins. Fyrirtækin skipta gjaldeyrinum í krónur, þ.e. selja gjaldeyri og kaupa krónur. Þetta hækkar verðið (gengið) á krónum og lækkar verðið (gengið) á gjaldeyrinum. Sem fyrr sagði batna lífskjör almennings við þetta, því stór hluti okkar neysluvara er innfluttur. Ef allt er með felldu er jafnvægi í viðskiptum landsins við önnur lönd. Ef viðskiptahalli er hins vegar langvarandi þarf að taka lán til að borga hann og vaxtakostnaðurinn íþyngir þjóðarbúinu og skerðir það sem er til skiptanna.

Þegar á móti blæs.

Kjör útflutningsfyrirtækjanna versna við styrkingu krónunnar. Með lægra gengi erlendu gjaldmiðlanna minnka tekjur þeirra. Segja má að velgengnin streymi frá fyrirtækjunum til þjóðarinnar.  Þegar á móti blæs snýst þetta við.  Öll þjóðin tekur höggið af gengislækkun og fyrirtækin lifa af og þrauka fremur en að fara í þrot. Munum að það er auðvelt að koma fyrirtækjum í þrot, en afar erfitt og áhættusamt að koma fyrirtæki á fót.

Nú skulum við hugleiða hvað gerist ef við tökum upp evru eða dollar. Sjálftökufólkið færi sínu áfram fram, ekkert getur breytt því. Almenningur krefst sömu launahækkana. Eru einhver líkindi á að fólk sætti sig betur við óréttláta tekjuskiptingu með evru eða dollar?  Verður meiri friður á vinnumarkaði? Varla.

Hugsum okkur að það verði áfall, aflabrestur, verðfall og samdráttur í ferðaþjónustu.  Útflutningsfyrirtækin taka þá höggið ein, engin gengisfelling kemur til hjálpar, hlutfallið milli tekna og launa lagast ekki. Fleiri fyrirtæki týna tölunni og starfsmenn þeirra missa vinnuna. Stöndugri fyrirtækin þrauka og starfsfólk þeirra og hins opinbera heldur vinnunni. M.ö.o. sumir sleppa áfallalítið, en aðrir missa vinnuna og verða harðar úti. Það eru fyrst og fremst þeir sem missa vinnuna sem taka höggið. Það er ekki tekið sameiginlega. Fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota og af því að mikið mál er að stofna ný fyrirtæki þó glaðni til á ný varir atvinnuleysið lengur.

Alvöru hátekjuskatt.

Hugsum okkur líka að það batni í ári. Afli, verðlag og aðstreymi ferðamanna fer upp á við.  Gengið breytist ekki, eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna sem fá aukningu hagnast fyrst og mest, svo dreifast áhrifin smám saman um efnahagslífið.

Gengisfelling er jafnaðar-tæki. Bæði andstreymi og meðvindur með gengisstyrkingu dreifast jafnar. Atvinnuleysi er mesta samfélagslega bölið.  Að hafa atvinnu, verkefni og vinnufélaga er hamingjuuppskrift.  Ég er krati, jafnaðarmaður. Ég vil frekar krónu en evru eða dollar.

Vilji fólk hemja sjálftökuna þarf að gera tvennt: Koma á alvöru hátekjuskatti og setja um leið hámark á frádráttarbærni launa til hvers og eins launþega. Á meðan kjörnir fulltrúar, þingmenn og ráðherrar, taka þátt í sjálftökunni mun ekkert breytast.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: