- Advertisement -

Ég veit ekki hvað það verður sem drepur mig, en það drepur mig áreiðanlega

Heimilin matarlaus, skrimtu einhvern veginn af veturinn, tóku út hjá útgerðarmanninum upp í væntanleg aflabrögð.

Þjóðlegur fróðleikur á sunnudegi: „Ég get varla talað við þig. Ég er nýbúinn að fá tennur og er allur bólginn í kjaftinum. Svo svaf ég ekkert í morgun. Ég gleymdi útvarpinu á, og þeir voru að jarða einhvern rétt við eyrað á mér.“

Ólafur sest upp í fletinu, Reykvíkingur í húð og hár. Sjóari fram í fingurgóma. Allt umhverfis hann eru net og snæri, lóðir og nálar. Þetta er hans netaverkstæði, eins og hann kallar það, en svefnhús og kokkhús um leið. Orgelið stendur við rúmgaflinn, gamalt og lúið. Gítarinn hangir upp á vegg, með tveimur strengjum; í þessari „hljómlistarhöll“ er sennilega ekki spilað lengur, en orgelið og gítarinn vitna um forna frægð.

Hann var þrettán ára, þegar hann fór á sjóinn fyrst, á kútter. Það var algengt, að menn færu þá um fermingaraldur á sjóinn. Heimilin matarlaus, skrimtu einhvern veginn af veturinn, tóku út hjá útgerðarmanninum upp í væntanleg aflabrögð. Ekkert handtak að hafa í landi á veturna. Fólk varð að lifa af því, sem sjómennirnir í fjölskyldunni, faðirinn, synirnir öfluðu öfluðu á vertíð og sumarfiskveiðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ólafur Einarsson fæddist í Háholti í Reykjavík 1888. Faðir hans var Einar Einarsson, sjómaður frá Bollastöðum á Seltjarnarnesi, en móðir hans Kristrún Gísladóttir frá Kiðafelli í Kjós. Ólafur á fjögur uppkomin börn.

Úr Sunnudagsblaði Tímans.

„Það var ljóta lífið á þessum kútterum. Þetta voru manndrápskollur og alltaf að farast. En maður hafði það gott á þeim. Sá hafði best, sem mest dró. Það hefur aldrei neinn botnað í því, hvers vegna einn dregur meira en annar. Það er leyndardómur. Já, maður fékk soðningu kvölds og morgna, en sætsúpu á sunnudögum. Rúgbrauð alla vikuna.“

Það varð alltaf að halda sjó á þessum kútterum, og þá  gerðust illviðri mikil eins og nú. Öldurnar gleyptu stundum kútterana og skiluðu engu aftur. En þær náðu ekki í Ólaf. Hann flakkaði um sjóinn, þrettán ára, fjórtán, fimmtán, sextán… og þar fram allar götur, þar til hann situr hérna á fletinu sjötíu og fjögurra ára, og það brakar stundum í liðamótum hans, þótt hann sé hraustur og vaki í hvalbátunum á næturnar, þar sem þeir liggja við Ægisgarð: Ég lærði að spila á gítar og harmóniku og allan andskotann, þegar ég var ungur. Ég dansaði eins og óður væri og spilaði á böllum á Ísafirði og hérna. Þá dönsuðu allir fram undir morgun. Það var ekkert annað hægt að gera sér til skemmtunar. En maður fír ekki heim með stúlkunum og kyssti þær í dyrunum. Maður var svo feiminn.“

Hann var í ellefu ár á mótorbátum frá Ísafirði. Þeir réru í skammdegismyrkrinu og sóttu fiskinn langt, oft undir Jökul um lokin. „Það var ekkert betra á þeim en kútterunum og verra, þegar fiskaðist, ekkert sofið fyrr en búið var að fylla bátinn. Við urðum að beita allar lóðir áður en við fórum á sjó, við bæði beittum og söltuðum um borð. Okkur þótti hátíð að vera á mótorbát á vertíð hér hjá því að róa veturna á Ísafirði.“

Það var ekkert betra á þeim en kútterunum og verra, þegar fiskaðist, ekkert sofið fyrr en búið var að fylla bátinn.

Já, hann spilaði á böllum, söng og hló og fékk sér neðan í því með félögum sínum. Sjómaður af lífi og sál. Sjórinn sleppir sjómanni í land til þess að hann geti gleymt sér um stund, trúað því, að hann sé frjáls meðan dansinn dunar. En hann bíður eftir honum, kippir í taugina og teymir hann út á miðin á ný. Beint af ballinu út á miðin skal hann með síðustu tóna harmónikunnar í sálinni.

Ellefu ár í skammdegisveðrum á mótorbátunum, beitt, fiskað, saltað. Sama sagan endursögð án tilbrigða.

En svo komst hann á trollara: „Það var ósköp leiðinlegt og ófiskilegt veiðarfæri, þetta troll. En það mokfiskaðist með því. Þá var fjögurra tíma lögboðinn svefn. Á þeim árum gengu margir fram af sér á trollurunum, því þeir voru alltaf í fiski. Samt biðu menn von úr viti til að komast á þá; kútterarnir voru hættir að að fiska og farið að selja þá úr landi, árabátarnir voru líka hættir að fiska. Það voru bara trollararnir, sem fiskuðu, og menn stóðu á kafi í fiski á þilfarinu tuttugu tíma á sólarhring.“

Togararnir sköpuðu atvinnu í landi: „Alls staðar úti um allan bæ var raðað grjóti til þess að þurrka fisk. Fólk setti hann meira að segja á grjótgarðana umhverfis bæina. Þá var enginn fiskur sendur út öðruvísi en þurrkaður, og allir unnu við að breiða þennan fisk, sem gaf fólkinu lífið.“

Hann var þrettán ára, þegar hann fór á sjóinn fyrst, á kútter. Það var algengt, að menn færu þá um fermingaraldur á sjóinn.

Hann var á fjórum íslenskum trollurum og einum enskum. Hann segir fátt af þeim. Kannski eru þeir allur runnir saman í einn: Skipstjórinn stingur hausnum út um brúargluggann: „Hífa,“ öskrar hann.

Menn í sjófötum, gulir gráir, þjóta eftir þilfarinu. Það pusar á þá. Nótt eða dagur, logn eða stormur. Tuttugu tíma á sólarhring getur maðurinn í glugganum kallað til þeirra eins og núna: „Hífa.“ Það þýðir ekki að mögla, þótt þreytan hafi tekið sér bólfestu í limunum, rauðþrútnum augunum. Pokinn í djúpinu fullur af spriklandi fiski og spilið er knúið af hugsjón útgerðarinnar. Meiri fisk, meiri peninga. Mennirnir á þilfarinu eru verkfærin, gufusveitt spilið er verkfærið, vírarnir trollið.

Svo liggur fiskurinn á þilfarinu, lifandi, spriklandi, og það glampar á hvítan kviðinn á honum, þegar mennirnir ráðast að honum með hnífana á lofti. Á meðan sígur trollið til botns á ný; það  strekkist á vírunum. Í djúpinu eru fleiri fiskar, fiskar meiri peningar. Það væri munur að eiga trillu og vera frjáls maður, sjálfs síns herra.

Hann eignaðist ekki fyrstu trilluna fyrr en hann var kominn hátt á sextugsaldur. En trilluveiðarnar eiga hug hans enn þá. Þú sérð það í svip hans. Hann talar um trillu sína með gleði. Hún heitir Hulda. Liggur í höfninni, vélarlaus núna. Vélin eru undir tröppunum hérna fyrir utan. Hann setur hana í trilluna í vor. Þegar hvalbátarnir eru farnir frá Ægisgarði og farnir að veiða nafna sína.

Þá fer hann á hrognkelsi. Netið liggur á stólbakinu við rúmið, reiðubúið:

Og það hefur margur drepið sig á stórflyðru.

„En þá brá svo við, þegar ég fékk trilluna, að það hætti að fiskast. Þá fórum við sumir að elta lúðu. Lúðan er skemmtilegasti fiskur sem ég veit. Það er spennandi að fást við hana. Miklu meira spennandi en  veiða lax. Hún er sterk, skaltu trúa, þegar hún er stór og mikil. Það er gaman að takast á við hana. Stundum missir maður hana og þá bölvar maður klaufaskapnum. Auðvitað ræður enginn hvernig krækist í hana. Þegar ég átti fyrst við hana var ég á átján feta skektu. Þegar báturinn er svona verður maður að rota þær áður en maður innbyrðir þær. Ef maður er vanur, lætur maður þær renna inn í bátinn. Það gerir enginn óvaningur. Og það hefur margur drepið sig á stórflyðru. Við Gvendur á Helgastöðum, faðir Kristmanns skálds,  vorum oft saman í Hvalfirðinum að eltast við hana. Við kepptum um lúðuna, Gvendur og ég. En það var eins með lúðuna. Hún hvarf, var miklu minna um hana sumarið, sem ég byrjaði en sumarið áður. Þá fékk Óli á Bakka 60 yfir sumarið í Hvalfirðinum. En ég fékk aldrei meira en 24. Margar voru samt yfir 250 pund. Tvívegis fékk ég þrjár sama daginn. Þá var ég kátur. Þegar hún hvarf úr Hvalfirðinum, var hún líka að hverfa úr Breiðafirðinum. Ég fór þangað tvö sumur á trillunni minni, og fyrra sumarið fékk ég 59 lúður, en seinna  sumarið bara 14. Svona var það já öllum. En mikið var gaman í Breiðafirðinum innan um allar þessar eyjar, einn á báti. Það var sumarfrí hvern einasta dag. Mig langar alltaf þangað og nú hef ég heyrt að þeir séu farnir að fiska hana aftur. Allir Eyjamenn fiskuðu stórlúðu, þegar ég byrjaði.

Einhvern daginn milli fyrstu og annarrar barnalegunnar smíðaði hann sér bát úr blikki og kom honum upp í Hvalvatn. Hann lá þar í helli við kertaljós og veiddi silung á blikkbátnum.

Nei, nú fer ég að drepast. Því er nú fjandans verr. Mig langar ekkert til þess, en ég verð að sætta mig  við það. Ég er búinn að liggja tvær banalegur, úr þeirri þriðju fer ég. Ég veit ekki, hvað það verður, sem drepur mig, en það drepur mig áreiðanlega.“

Hér áður skaut hann svartfugl á vorin:

„Það þótti ekki róður, ef við fengum ekki tvö hundruð fugla á dag. Þeir eru stundum hátt á fjórða hundrað. Nú segja þeir, að það sé svartur sjór af fugli, en hann er langt frá landi og skotin og bensínið á trilluna er svo dýrt, að maður verður að hæfa tvo fugla í einu skoti, ef það á að borga sig, Ég fór líka stundum á rjúpnaveiðar á haustin, lagði upp frá Litla- eða Stóra-Botni í Hvalfirði. Þetta var lífið hjá okkur, þegar haustið kom og veturinn, en þegar kom fram í febrúar fórum við að hugsa til sjávarins.“

Einhvern daginn milli fyrstu og annarrar barnalegunnar smíðaði hann sér bát úr blikki og kom honum upp í Hvalvatn. Hann lá þar í helli við kertaljós og veiddi silung á blikkbátnum.

„Blikkbáturinn lifði í mörg ár við vatnið. Þeir notuðu hann meira að segja, þegar þeir lögðu mæðiveikigirðinguna. Veiðimennirnir stálu honum stundum, og í eitt skiptið hafa þeir ekki bundið hann nógu vel niður. Þá hefur hann fokið út í vatnið og borið þar beinin.“

Hann hefur aldrei kvænst: En ég eignaðist mörg börn samt, og ég er alltaf að skrifa dóttur minni, sem er gift Bandaríkjamanni. Ég skrifa henni á næturnar og morgnana minnst tíu síður um alla heima og geima. Það er gott fyrir gigtarskrokk og hálfgerðan lassaróna að vera á vakt í bátum, sem bundnir við bryggjuna. Hver nótt er annarri fallegri og hvítalogn, hægt að labba með logandi kerti á milli bátanna. Ég gerði það að gamni mínu á gamlárskvöld og það lifði á því.“

Þegar vorar, siglir hann út úr höfninni á trillunni til þess að huga að hrognkelsunum. Kútterinn, sá fyrsti, sem hann fór á, er langt að baki. Það var, þegar eitt hús stóð á Melunum, þegar börnin fóru í berjaheiðinga á Öskjuhlíðinni, þegar sjórinn gjálfraði við bryggjustaurana við verslun Geirs Zoega og Tryggvagatan var ekki til.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: