- Advertisement -

Ég var sett á svartan lista og mátti ekki einu sinni hafa skráðan síma

Texti og mynd: Alda Lóa: „Þetta er æðislegt, hérna hefur alltaf verið gott að vinna, ég var herbergisþerna á hótelinu í 25 ár og hef verið í saumaskpanum í þrjú ár. Félagsskapurinn er alveg rosalega góður. Það var gaman á herbergjunum og herbergisþernustarfið var eftirsótt og færri komust að en vildu. Í þá daga voru þetta oftast fullorðnar íslenskar konur sem voru í þrifum, konur sem voru laustengdar vinnumarkaðnum og komu í afleysingar einn til tvo daga í senn. Það var ekki svona mikið að gera eins og núna, það er ekki hægt að líkja því saman.

Launin eru ekki mikil í þessari stétt, ég held að þau séu ein þau lægstu miðað við hvað þau eru erfið. Vaktirnar voru þær að maður vann fjóra daga og frí einn dag. Það var ein fríhelgi yfir sumarið, það var ekki sagt orð, ekki orð. Það er betur passað upp á það í dag að þú fáir bara vissan fjölda herbergja að þrífa og viss margar fermetra og líka eitthvað frí. En launin hafa hvorki versnað né batnað. Ég fékk borgað eftir taxta, fyrst var ég á byrjunarlaunum svo hækkaði maður um taxta eftir fimm ár, næst eftir sjö ár og svo búið. Þannig að ég hækkaði ekki um taxta í átján ár.

Ég vann alltaf þrefalda vinnu, ég vann hérna, svo var ég í frystihúsi í Hafnarfirði í vaktarfríum, og skúraði á þriðja staðnum á kvöldin. Ég var ein með þrjú börn á leigumarkaði en ein laun dugðu ekki. Börnunum þrem gat ég ekki veitt neitt, hvorki íþróttir né annað. Aðalmálið var að koma góðum mat ofan í þau. Ég fékk fiskinn ódýran í frystihúsinu og svo var það gamla góða kjötfarsið sem hefur alltaf verið ódýrt. Húsaleiga var há þá miðað við launin sem ég fékk. Mér fannst leigumarkaðurinn ekki síður erfiðari þá en núna og erfitt að fá húsnæði. Í dag eru þeir alltaf að hæla sér fyrir að þeir séu að byggja einhverjar blokkir en það er bara húsnæði fyrir efnað fólk.

Í miðjum skilnaði kom í ljós að við vorum komin í fjárhagslegt þrot og misstsum húsnæðið. Ég var þá sett á svartan lista og mátti ekki einu sinna vera með skráðan síma heima hjá mér. Ég var ein með þrjú börn, þrem vinnum, bíllaus og ekki með síma. Svona var þetta bara og það er hræðilegt og það er vægt til orða tekið að sjá börnin sín í dag í sama baslinu og maður sjálfur lenti í. Sonur minn er að borga 230 þúsund í leigu og dóttir mín missti allt sitt í hruninu og má ekki vera skráð fyrir bíl. Ef ég gæti þá myndi ég helst vilja taka þeirra þungu spor sjálf heldur en að sjá þau endurtaka sama baslið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég missti svo heilsuna eftir þetta allt saman, ég er bæði gigtarsjúklingur og lungnasjúklingur. Þegar ég var orðin heilsulaus þá bauð hótelið mér þetta saumastarf, þetta er frábær vinnustaður og góður hótelstjóri. Ég nýti allt efni sem er tekið úr umferð. Úr gömlum sængurverum sauma ég jólapoka og þegar þernurnar hafa tíma þá setjast þær hérna hjá mér og lita og teikna á pokana, svo setjum við kex og góðgæti í pokann og hengjum á hurðarhúna gestanna. Ég tek gömul og lúin handklæði, ríf þau í sundur og nota í borðtuskur og gólftuskur, overlokka kantana með sitthvorum litnum, gult í herbergjadeildina, grátt í eldhúsið. Ég sauma líka handklæðapoka og set utan um hausinn á skúringagræjunni í staðin fyrir að nota mopp, við viljum ekki moppa. Moppar eru ekki góð uppfinning, þeir eru bara til að dreifa skítnum og rykinu. Þetta er rosalega góð nýting á öllu lérefti og efnum, ég held að svona endurvinnsla sé einsdæmi fyrir hótel.

Ég átti ekkert í hruninu og hafði engu að tapa. Í dag er ég aftur gift og ágætlega stæð, ég á náttúrulega rosalega duglegan mann. Mér hefði aldrei grunað að ég ætti eftir að hafa það svona gott seinni árin mín, ég á svo góðan eiginmann sem ber mig á höndum sér. Ég hef alltaf verið svo þver sem ég held að hafi haldið mér gangandi, annars væri ég löngu orðin rúmliggjandi. Ég vinn út af félagsskapnum og vil ekki fara á örorkubætur. “

Kristín H. Jónatansdóttir er saumakona á Icelandair hóteli og félagi í Eflingu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: